þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kleifabergið heldur til veiða í Baretshafið

29. janúar 2019 kl. 14:58

Fékk svigrúm til þess að halda til veiða vegna frestunar á sviptingu veiðileyfis sem átti að taka gildi snemma í febrúar. Túrinn skiptir áhöfn skipsins afar miklu máli, sem og útgerðina.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að Kleifaberg RE heldur til veiða í kvöld, en sem kunnugt er svipti Fiskistofa skipið veiðileyfi en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frestaði sviptingunni fyrir skemmstu. Svipting leyfisins er vegna meintra brota á lögum um umgengni nytjastofna, þ.e. brottkasts á fiski.

ÚR, sem gerir út Kleifaberg, kærði ákvörðun Fiskistofu á þeim forsendum að lagagrunnur hennar væri veikur, meint brot löngu fyrnd, rannsókn Fiskistofu ámælisverð, skýringar rangar, andmælaregla brotin og meðalhófs ekki gætt. Svipting veiðileyfis hefði valdið útgerð og áhöfn verulegu tjóni og var ekki í neinu samræmi við hin meintu brot.

Í fréttatilkynningunni segir jafnframt:

Í bréfi ráðuneytis til ÚR segir að ráðuneytið fresti „ ...réttarárhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar í ráðuneytinu, fram til 15.apríl 2019.“ ÚR fór í kæru sinni fram á að ráðuneytið felli ákvörðun Fiskistofu úr gildi og er það von félagsins að sú verði niðurstaða þess enda allar forsendur hennar mjög veikar.

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR hf.: „Það er gleðiefni að þetta mikla fiskskip haldi aftur til veiða. Framundan eru sá árstími sem skipið hefur að jafnaði veitt um þriðjung af heildarverðmæti á ári hverju og því er mikilvægt að það komist úr höfn. Stefnt er að um 30 daga úthaldi og að skipið komi til baka með fullfermi. Aflaverðmæti eru mikil og skipta bæði útgerð og áhöfn mjög miklu máli.“