sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kollagenverksmiðjan rís innan tíðar

Guðsteinn Bjarnason
12. júní 2018 kl. 13:00

Frá tilraunasmiðjunni í Juncà Gelatines á Spáni, þar sem verið er að prófa mögulegar afurðir fyrir Codland. MYND/AÐSEND

Samkeppniseftirlitið hefur gefið grænt ljós á samstarf nokkurra stærstu sjávarútvegsfélaga landsins um kollagenverksmiðju sem á að framleiða kollagen úr fjögur þúsund tonnum af þorskroði árlega.

Samkeppniseftirlitið sendi 24. maí frá sér tilkynningu um að það telji ekki ástæðu til að aðhafast vegna fyrirhugaðrar kollagenverksmiðju, sem nokkur stærstu sjávarútvegsfélög Íslands hafa sameinast um að reisa á Suðurnesjum í samvinnu við Codland, fyrirtæki sem stofnað var innan Sjávarklasans árið 2012.

Verksmiðjan verður samstarfsverkefni Samherja, HB Granda, Vísis og Þorbjarnar, sem eiga jafnan hlut í fyrirtækinu ásamt spænska félaginu Junca Gelatines sem hefur mikla reynslu af því að vinna kollagen og gelatín úr svínshúðum.

Verksmiðjan hefur verið langt kominn á teikniborðinu um nokkra hríð og niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins hefur því verið beðið með eftirvæntingu.

„Við höfum náttúrlega haldið áfram með hönnunina á verksmiðjunni meðan við biðum, og það hefur gengið mjög vel. Við höfum alltaf tekið smá skref og erum núna komnir með þetta græna ljós sem er bara frábært,“ segir Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri hjá Codland, en Codland var í upphafi stofnað utan um þá hugmynd að fullvinna fiskinn sem við veiðum og nýta út í æsar þær afurðir sem áður var að mestu hent.

Stefnt á áramótin næstu
Ekkert er því að vanbúnaði lengur. Vinnan við uppsetningu verksmiðjunnar getur hafist, en þar er ætlunin að vinna kollagen úr þorskroði til að byrja með. Síðar meir verður ef til vill prófað að nýta hrygginn einnig. Afkastagetan verður um 4.000 tonn af þorskroði og úr því er hægt að framleiða um 400 tonn af kollageni. Heildarfjárfestingin verður um það bil einn milljarður króna.

„Núna getum við farið að panta tækin og raða þeim upp. Við gerum ráð fyrir að stærsta tækið sem við þurfum að panta taki svona 8 til 9 mánuði í afhendingartíma, þannig að við erum að horfa á að við getum farið að keyra upp verksmiðjuna í kringum áramótin ef allt gengur upp.“

Verið er að finna húsnæði sem hentar undir starfsemina, og er þá verið að horfa til Grindavíkur og nágrennis.

„Við viljum vera í tengingu við Auðlindagarðinn hjá HS Orku. Það skiptir okkur miklu máli,“ segir Tómas Þór. „Við höfum verið að skoða hvort við eigum frekar að byggja húsnæði eða kaupa og höfum verið að skoða. Við erum núna með augastað á einu.“

Talsvert magn af tækjabúnaði þarf í verksmiðjuna og miklu skiptir að vandað sé til verka þegar tækin eru valin.

„Við þurfum að vera vissir um að það virki rétt og allt tali saman. Við erum líka að reyna að hafa búnaðinn eins sjálfvirkan og við getum.“

Frumkvöðlajarðvegur
Codland er sprottið upp úr frumkvöðlajarðvegi Sjávarklasans, var stofnað þar árið 2012 með það í huga að fullvinna fiskinn sem við veiðum. Hugmyndin var frá upphafi sú nýta fiskinn allan í verðmætar afurðir frekar en að henda úrgangi í miklu magni eins og áður var jafnan gert.

„Fyrstu hugmyndirnar mótuðust í Sjávarklasanum og þær hafa síðan þróast áfram, fyrst þegar Þorbjörn og Vísir komu inn í þetta, og síðan í framhaldinu með miklu samstarfi við Juncà-menn á Spáni. Síðan koma Samherji og HB grandi inn, og þá fáum við þann stöðugleika sem þarf til að þetta fari alla leið. Einnig kemur Íslandsbanki að fjármögnun verkefnisins og ánægjulegt að sjá þeirra trú á þá verðmæta aukningu sem þetta nýsköpunarverkefni mun koma með inn í íslenskan sjávarútveg.“

Eftir að grindvísku fyrirtækin Vísir og Þorbjörn komu inn í samstarfið flutti Codland höfuðstöðvar sínar til Grindavíkur og hefur þar framleitt ýmsar afurðir einkum úr þorskroði, svo sem fiskolíu, fiskimjöl og sjávarkollagen.

Tómas Þór segir afar mikilvægt að hafa fengið stóru fyrirtækin, Samherja, HB Granda Þorbjörn og Vísir, inn í þetta starf.

„Það er frábært að fá þessar útgerðir með. Það sýnir hvað þær eru framsýnar á að auka nýtinguna og verðmætin og svo skiptir það öllu máli varðandi öll langtímasjónarmið, grunninn og festuna fyrir þetta verkefni. Maður sér líka mikil tækifæri í að vera með svona stóra aðila. Þeir hafa þekkingu á þvi hvernig þú ferð inn á stóra markaði og hafa sambönd inn á ákveðna markaði. Það er líka svo mikilvægt að sýna hvað menn eru að hugsa varðandi hráefni. Þetta hjálpar alltaf að geta sýnt fram á að þú ert með fullnýtingu og hugsar um nýtinguna og auðlindina. Þetta snýst ekkert bara um að selja vöruna heldur líka hvað við stöndum fyrir, hvaða orku þú ert með og hvað Ísland er.“

Byrjað á þorskroði
Samstarfið við spænska fyrirtækið Juncà Gelatines hefur ekki síður skipt miklu máli. Þar er fyrir hendi mikil reynsla og þekking á því hvernig gelatín og kollagen er búið til úr svínaskinni. Þessa þekkingu segir Tómas Þór vera nauðsynlega til að geta farið út í þessa framleiðslu hér.

„Við höfum verið að vinna með þeim því þar er öll þekkingin, og það skiptir miklu máli fyrir okkur að ná þekkingunni til okkar. Síðan sjáum við hvernig það þróast hér heima í framhaldinu.“

Þegar starfsemi fer af stað í nýju verksmiðjunni verður framleiðslan til að byrja með bundin við þorskroð.

„Við höfum samt möguleika á að vinna úr öðru til framtíðar litið, eins og hryggnum. Við höfum líka verið að gera tilraunir með gelatínframleiðslu úr fiskroði. Það eru aðilar á markaðnum með slíkt og það er með aðeins öðruvísi eiginleika en hið hefðbundna gelatín á markaðnu í dag.“

Gelatín er mikið notað sem matarlím og í hlaup og þykkni af ýmsu tagi, oftast unnið úr beinum og húð dýra, einkum svína og nautgripa. Í lyfjaiðnaðinum er gelatín einnig mikið notað í lyfjahylki.

„Við höfum til dæmis átt mjög spennandi samtal við fyrirtæki í lyfjageiranum varðandi það. Gelatínið myndar þá húð fyrir ákveðnar vörur. En það er allt lengri tíma markmið.“

Hann segir viðbrögðin nú þegar hafa verið góð, margar fyrirspurnir hafi borist víðs vegar að úr heiminum. Sjávarkollagen sé orðið mjög eftirsótt, ekki síst í heilsuvörur ýmis konar, og vinsældir þess aukist stöðugt.

„Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum frá Bandaríkjunum og alveg til Singapúrs og Japans. Líka frá Evrópulöndum. En við höfum ekkert getað unnið úr þessum fyrirspurnum fyrr en við vitum nákvæmlega hvenær hægt er að nefna dagsetningar. Þess vegna hefur verið svo mikilvægt að fá þessi svör til að geta sagt hvenær við getum farið að byrja. Það skiptir gríðarlegu máli.“

Ímyndin mikilvæg
Sem fyrr segir er áætlað að afkastageta verksmiðjunnar til að byrja með verði um 4.000 tonn af roði sem gefur um 400 tonn af afurð.

„Það þýðir að fyrir okkur er þetta frekar stórt verkefni en þegar maður horfir á allan heiminn er þetta lítið. Við þurfum því að vinna í því að aðgreina okkur frá öðrum. Það er eins og alltaf með allar afurðir, þú verður alltaf að segja hvað við erum frábær. Þannig að það verður mikil vinna núna framundan við að reyna að olnboga okkur inn á þennan stóra markað, láta vita hvernig varan okkar er búin til og hvað það er stutt lína frá því fiskurinn kemur úr sjónum og þangað til hann fer í framleiðslu hjá okkur.“

Hann segir að aðilar kollagens verkefnisins leggi síðan mikla áherslu á að fylgja vörunni eftir.

„Við viljum ekki fara inn á markað með vöruna og síðan ekki sjá neitt meira hvert hún fer. Því við erum að selja þessa ímynd um leið.“