sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kolmunnakvótinn eykst um 57% milli ára

7. apríl 2017 kl. 13:52

Kolmunni

Í ár má veiða 264.000 tonn samanborið við 168.000 tonn í fyrra.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út endanlegan kvóta íslenskra skipa á kolmunnaveiðum á þessu ári og er hann 264.000 tonn. Til samanburðar má nefna að leyfilegur afli á síðasta ári var 168.000 tonn þannig að aukningin milli ára er 57%. 

Um áramótin var gefinn út bráðabirgðakvóti fyrir þetta ár upp á 150.000 tonn með þeim fyrirvara að endanlegur kvóti yrði ákveðinn þegar séð væri hvernig aðrar veiðiþjóðir ætluðu að haga sínum úthlutunum þannig að hagsmunir Íslands yrðu ekki fyrir borð bornir.

 Af 264.000 tonna endanlegum kvóta er 250.000  tonnum úthlutað beint til viðkomandi skipa en afgangurinn fer í „pottana“. 

Í reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að íslenskum skipum sé einungis heimilt að veiða 218.000 tonn í lögsögu Færeyja. Það magn sem hvert skip má veiða í færeysku lögsögunni takmarkast við 82,5% af aflamarki skipsins í kolmunna.