laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kolmunnakvótinn skertur um 90%

19. október 2010 kl. 18:08

Samningum lauk í dag í London um kolmunnaveiðar í Norður-Atlantshafi á næsta ári. Tæplega sjö þúsund tonn koma í hlut íslenskra veiðiskipa á næsta ári samanborið við um níutíu þúsund tonn á þessu ári. .

Við samningaborðið í London í dag voru fulltrúar Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna, ESB og Rússa og var niðurstaðan einróma um að fylgja ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um gríðarlegan niðurskurð á kolmunnakvótanum á næsta ári. Á þessu ári er heildarveiðin á sjötta hundrað þúsund tonn en í dag var ákveðið að heimila veiði á fjörutíu þúsund tonnum á næsta ári.

Kristján Freyr Helgason, sem fer fyrir samninganefnd Íslands, segir í samtali við ríkisútvarpið þetta þýða að íslensk skip fái einungis að veiða sem nemi 7 þúsund tonnum á næsta ári í samanburði við tæplega 90 þúsund á þessu ári. Hann segir meginástæðuna fyrir þessu skort á nýliðun í stofninum síðustu 4 til 5 ár. Veitt hafi verið úr sömu árgöngum og það birtist með þessum hætti.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir þessa samningsniðurstöðu ekki óvænta en hún sé mikið áfall.  Um sé að ræða um 80 þúsund tonna niðurskurð, sem hægt sé að meta á um þrjá og hálfan milljarð í útflutningstekjum. Friðrik segir þetta bitna mest á uppsjávarútgerðum, ekki síst á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram á vef RUV.