þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kolmunnavinnsla hafin á Akranesi

9. maí 2018 kl. 08:55

Víkingur AK

Spáin fyrir kolmunnamiðin næstu daga ekki hagstæð.

Vinnsla á kolmunna er nú hafin hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi eftir að Víkingur AK landaði þar um 2.600 tonnum um síðustu helgi.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins sem ræddi við Albert Sveinsson, skipstjóra á Víkingi AK, er hann var á leið á miðin suðvestur af Færeyjum nú um miðjan dag í gær.

„Þetta er nokkuð löng sigling og við eigum 110 mílur ófarnar að skipunum sem eru þarna að kolmunnaveiðum. Við ættum því að ná á miðin seint í kvöld,“ segir Albert en að hans sögn er Víkingur nú í sinni fimmtu kolmunnaveiðiferð eftir að veiðar hófust að nýju fyrir tæpum mánuði. Afli skipsins fyrir þennan túr er rúmlega 10.000 tonn en yfirleitt er siglt til hafnar með 2.500 til 2.600 tonn eða nánast fullfermi.

„Það er búin að vera mjög jöfn og góð veiði. Það var reyndar kraftur í henni á tímabili og menn voru að fá 400 til 500 tonna hol eftir sex til átta tíma. Síðan dró tímabundið úr þessu og menn þurftu að toga lengur en mér skilst að það hafi verið ágætis veiði í gær. Spáin fyrir næstu daga er hins vegar leiðinleg. Einhver sunnan strekkingur en við vonum hið besta,“ sagði Albert Sveinsson