laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kolmunni: Góð aflabrögð á endasprettinum

29. apríl 2009 kl. 15:00

,,Kolmunnaveiðarnar hafi gengið mjög vel að undanförnu og eru flest íslensku skipin búin með kvóta sína eða við það að klára þá. Við erum núna staddir um 70 mílur suður af Suðurey í Færeyjum og frystum aflann um borð,” sagði Guðjón Jóhannsson skipstjóri á Hákoni ÞH í samtali við Fiskifréttir í dag.

,,Við frystum þann hluta aflans sem er frystingarhæfur, en kolmunninn er gríðarlega viðkvæmur og því þolir hráefnið ekki geymslu nema í einn sólarhring, eftir það fer það að skemmast. Það fer því alltaf eitthvað af afla okkar í bræðslu,” sagði Guðjón. Fram kemur í máli hans að aflaverðmæti kolmunnans þrefaldist við frystingu samanborið við löndun í bræðslu.

,,Afkoman í frystingunni er í lagi meðan gengið er rétt skráð eins og núna. Hún var ekki í lagi fyrir einu ári þegar bankarnir fengu gjaldeyrinn fyrir ekki neitt og útflutningsatvinnuvegunum blæddi,” sagði Guðjón. ,,Þá er ég alveg gáttaður á þessu nýjasta útspil stjórnmálamanna um að við verðum að fara að borga fyrir að fá að veiða. Ég er búinn að vera rúm 40 ár á sjó og það skal verða mitt fyrsta verk að ganga í land ef þessar hugmyndir ná fram að ganga.”

Auk Hákons EA eru þrjú önnur skip á kolmunnamiðunum, Börkur, Margrét og Bjarni Ólafsson en sá síðastnefndi heldur heim í dag með afla sinn. Þrjú skip luku sér af í gær, Jón Kjartansson, Hoffell og Huginn. Auk íslensku skipanna eru nokkur norsk skip á miðunum og töluverður fjöldi rússneskra.

Samkvæmt skýrslu Fiskistofu var í gær búið að landa 93 þús. tonnum af 116 þús. tonna kolmunnakvóta Íslendinga eða 80%. Ljóst er að mun minna er eftir af kvótanum því aflatölur skila sér ekki alltaf strax inn á skýrslur auk þess sem nokkur skip eru á heimleið.