sunnudagur, 21. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komið að skuldadögum

Guðsteinn Bjarnason
26. maí 2018 kl. 07:00

Höfuðstöðvar HB Granda við Reykjavíkurhöfn. MYNG/HAG

HB Grandi hefur hætt allri notkun svartolíu, bæði í skipum og á landi. Forstjóri HB Granda segir menn áratugum saman hafa umgengist auðlindina af ábyrgðarleysi. Nú geri menn sér grein fyrir því að þótt sjórinn hafi tekið lengi við þá er nóg komið.

„HB Grandi vill vera til fyrirmyndar í samfélaginu og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að vera félaginu til sóma í störfum sínum,“ segir í nýrri samfélagsskýrslu HB Granda. Skýrslan er nýmæli, sú fyrsta sinnar tegundar sem íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sendir frá sér.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segist kynna þessa fyrstu samfélagsskýrslu fyrirtækisins með miklu stolti.

„Hér er ekki aðeins um að ræða fyrstu skýrslu félagsins í þessum efnum, heldur jafnframt fyrstu samfélagsskýrslu íslensks sjávarútvegsfélags,“ skrifar Vilhjálmur í ávarpi sem fylgir skýrslunni. „Það er metnaður félagsins að öll starfsemi þess sýni í verki ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu öllu.“

Í ávarpinu segir hann félagið ekki líta á þá vakningu sem orðið hefur um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem tímabundna tískubylgju heldur tækifæri fyrir félagið „til að efla þá grunnhugsun sem starfsemin þarf að byggjast á. Hér á ég við öflugan rekstur sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins og hefur lágmarksáhrif á umhverfið.“

Nokkurra ára aðdragandi
Í spjalli við Fiskifréttir um samfélagsskýrsluna segir Vilhjálmur að upphafið að þessari samfélagsskýrslu megi rekja til þess þegar tekin var ákvörðun um að HB Grandi myndi gerast aðili að Festu, sem er miðstöð um samfélagsabyrgð fyrirtækja. Það hafi verið í ársbyrjun 2014, eða um það leyti.

„Þá er að kvikna svolítið þessi umræða um samfélagslega ábyrgð og annað slíkt. Það er farið að ræða um snertifleti við samfélagið, þessa samfélagslegu ábyrgð og um gerð samfélagsskýrslu. Við tókum þessu frá byrjun alvarlega.“

Byrjað var á því að kalla saman umræðuhópa innan fyrirtækisins til að velta fyrir sér samfélagsábyrgð, hvað hún er og í hverju hún er fólgin. Allir starfsmenn tóku þátt.

„Það voru mjög misjöfn viðhorf meðal starfshópa innan félagsins. Þetta er náttúrlega mjög fjölbreytt starfsemi hérna og fjölbreytt starfsfólk. Það var til dæmis alls ekki sama afstaðan til þess hvað er samfélagsleg ábyrgð meðal starfsfólks í vinnslu og starfsfólks á skrifstofu, og svo sjómanna. Síðan er hérna fólk af mörgum þjóðernum.“

Vitundarvakning meðal starfsfólks
Vilhjálmur segir að það hafi tekið dálítið langan tíma að fara í gegnum þetta ferli allt saman.

„Síðan vaknar smám saman má segja innan félagsins og meðal starfsfólks meiri meðvitund um samfélagslega ábyrgð og í hverju hún felst, og þá einnig hvernig okkur ber að umgangast náttúruna og umhverfið. Þetta spilar allt saman.“

Í framhaldi af þessu var hafist handa við að ná utan um þetta verkefni, skoða öll aðföng og hvað verður um þau, athuga með losun og sorpflokkun og annað því tengt.

„Við höfum síðan verið að koma því í rafrænt horf þannig að við getum séð nákvæmlega hvað við erum að gera. Ná til dæmis tökum á allri orkunotkun, hvort sem það er í landi eða á sjó, bæði rafmagnið og vatnið og hvað það heitir.“

Nú er innan fyrirtækisins grannt fylgst með öllum þessum þáttum. Nú síðast í rauntímamælingu sem HB Grandi er að vinna að.

„Við erum í samstarfsverkefni um það með tölvufyrirtæki sem er að útbúa þau forrit sem á þarf að halda til að þetta sé hægt.“

Ekki hægt án nýjustu tækni
Hann segir tæknina nauðsynlega til að geta vitað nákvæmlega hvar eyðslan er, hvar hún er að aukast og hvar að minnka.

Hann minnir á að HG Grandi hafi þegar náð mikilvægum árangri varðandi sorpið. Fyrir fimm árum var sett upp sorpflokkunarstöð á Vopnafirði og í kjölfarið á því voru sorpflokkunarstöðvar einnig settar upp í Reykjavík og á Akranesi. Fjórir starfsmenn fyrirtækisins sinna því að flokka sorp, tveir í Reykjavík, einn á Akranesi og einn á Vopnafirði.

„Árangurinn af því er sá að áður fór hátt í 80 prósent af öllu sorpi til urðunar en nú fer hátt í áttatíu prósent af öllu sorpi í endurvinnslu, þannig að við erum búnir að minnka urðun gífurlega en auka það sem fer til endurvinnslu verulega.“

Hann segir það ekki síst starfsfólki fyrirtækisins að þakka hve vel hefur gengið að koma þessum verkefnum af stað.

„Það er kannski þess vegna sem þetta er komið svona langt, að það er svo mikill áhugi meðal starfsfólksins. Þessi umræða hefur fallið hér í mjög frjóan og góðan jarðveg.“

Borgar sig ekki fjárhagslega
HB Grandi er eina félagið í sjávarútvegi sem hefur sett saman samfélagsskýrslu. Vilhjálmur segist einnig telja að það séu ekki mörg fyritæki hér á landi sem flokka sorp jafn gaumgæfilega.

„Ég veit ekki um önnur félög sem eru með sérstakt starfsfólk í þessu. Enda er þetta ekkert að borga sig,“ segir hann.

„Vissulega fáum við greitt fyrir sumt af því sem fer til endurvinnslu, en það er ekkert að borga upp þennan kostnað. Sama má segja um skipin og verksmiðjurnar, þar erum við hættir að nota svartolíu. Það má segja að það væri ódýrara að vera með svartolíuna en hún mengar meira, þannig að þetta er eingöngu út frá umhverfissjónarmiðum sem við tökum þessa ákvörðun.“

Góða afkoman hjálpar
Verðmætasköpun af rekstri HB Granda nam ríflega 25 milljörðum króna árið 2017. Í samfélagsskýrslunni segir að þessum verðmætum hafi verið ráðstafað til samfélagsins með margvíslegum hætti, „svo sem með launagreiðslum til starfsfólks, kaupum á aðföngum frá birgjum, arðgreiðslum til hluthafa, greiðslu opinberra gjalda o.s.frv.“

Skattbyrði félagsins vegna ársins 2017 er sögð hafa verið 2.625 milljónir króna en þar af hafi veiðigjald numið 756 milljónum króna. Í skýrslunni segir að félagið sé stolt af þessu framlagi sínu til samfélagsins, og Vilhjálmur tekur undir það.

Hann segir HB Granda vissulega eiga auðveldara með að leggja þessa áherslu á umhverfið og samfélagið vegna þess að afkoma félagsins hefur verið góð.

„Það er hluti af því. Það má segja að ef við værum að berjast í bökkum þá veit ég ekki hver afstaðan yrði, en engu að síður þá er það nú þannig að ef við erum ekki að hugsa um umhverfið og auðlindina og umgengnina um hana hver ætti þá að gera það. Það er verið að tala um hlýnun sjávar og hugsanlega vofeiflegar afleiðingar af því, og það er alveg ljóst að við erum ekki búnir að umgangast umhverfið eða náttúruna og sjóinn nógu vel á undanförnum áratugum. Það er alveg komið að skuldadögum í þvi. Ég held að við þurfum allra þjóða helst að taka okkur saman í andlitinu í því. Ef við sem eigum allt okkar undir náttúrunni sýnum ekki gott fordæmi, hver á þá að gera það?“

Viðhorfin orðin gerbreytt
„Það má líka alveg segja það að okkur Íslendingum hefur borið gæfa til að grípa í taumana varðandi fiskistofnana og umgengni við þá í tíma. Við erum að njóta góðs af því núna og þetta er alveg sama hugsunin,“ segir hann um þessa auknu áherslu á samfélagsábyrgð í víðari skilningi.

„Við þurfum að skila auðlindunum í ekki lakara ástandi en við tókum við þeim. Hérna áður fyrr var viðkvæðið alltaf: lengi tekur sjórinn við, og öllu var bara gusað í sjóinn. Ég hef alveg tekið þátt í því og við sem höfum verið í þessari grein í einhverja áratugi. Nú er þetta gerbreytt sem betur fer og menn gera sér grein fyrir því að þó sjórinn hafi tekið lengi við þá er nóg komið.“

Svartolíunotkun heyrir sögunni til
„Umhverfismál fela í sér eina stærstu áskorun sjávarútvegsins og hefur mikil vinna farið fram svo að ná megi utan um umhverfisáhrif félagsins á stafrænan hátt og minnka skaðsemi þeirra,“ segir í samfélagsskýrslu HB Granda. „Sú vegferð hefur síðustu ár skilað sér í árlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.“

Í skýrslunni er nefnt er að losun gróðurhúsalofttegunda HB Granda hafi dregist saman um 9,8% á árinu 2017 miðað við árið 2016. Það hafi tekist þó svo að heildarveiði hafi aukist á sama tímabili úr 141.855 tonnum í 152.868 tonn.

Verkfall og ný skip
Skýringuna á þessum samdrætti í losun megi að vísu að hluta rekja til sjómannaverkfallsins í ársbyrjun sem stóð frá miðjum desember 2016 fram í miðjan febrúar 2017. Á meðan verkfallið stóð yfir lá starfsemi fyrirtækisins að stórum hluta niðri, alls tíu vikur tæpar, þar af rúmlega sjö vikur á árinu 2017.

Fleira kemur þó til, þar á meðal endurnýjun skipaflota félagsins. Skipin eru nú bæði færri og afkastameiri, og þau nýta eldsneytið betur.

Með endurnýjun flotans hefur HB Grandi auk þess alfarið hætt notkun á svartolíu. Auk þess hefur hlutur vistvænni orkugjafa aukist, meðal annars með því að tengja skip við rafmagn þegar þau leggjast að bryggju.

„Hið sama gildir um fiskmjölsverksmiðjur félagsins, sem áður voru keyrðar á olíu en eru í dag að mestu leyti rafvæddar líkt og aðrar vinnslustöðvar í landi.“

Kollagenverksmiðjan bíður samþykkis
Varðandi framtíðaráform HB Granda, stórfyrirtækis í islenskum sjávarútvegi sem hefur komið sér upp vinnslubúnaði af fullkomnustu gerð og er nýbúið að leggja út í miklar fjárfestingar við endurnýjun skipaflota síns, segir Vilhjálmar vissulega marga möguleika sjáanlega.

„Við höfum verið aðeins að færa okkur hærra í virðiskeðjuna. Við höfum verið að auka verðmæti aflans með frekari vinnslu,“ segir hann og nefnir í því samhengi kaup HB Granda á tveimur fyrirtækjum á Akranesi, Vigni G. Jónssyni og Norðanfiski. Bæði þessi fyrirtæki einbeita sér að fullvinnslu sjávarafurða og gera vöruna þannig verðmætari

„Við erum líka búnir að kaupa þriðjungshlut í fiskþurrkun með sama markmiði, og svo erum við í samstarfi við Vísi og Þorbjörn og Samherja um að koma upp kollagenverksmiðju til að ná kollageni úr roði.“

Sú verksmiðja hefur verið á teikniborðinu nokkra hríð. Að sögn Vilhjálms er einungis verið að bíða eftir því að Samkeppniseftirlitið leggi blessun sína yfir framkvæmdina.

„Það er engin önnur niðurstaða eiginlega sem þeir geta komist að, en það er búið að bíða eftir þeirri niðurstöðu í nokkra mánuði og ég veit ekki í hversu marga mánuði í viðbót þarf að bíða.“

Markaðsmálin í skoðun
Þá segir hann HB Granda vera að skoða markaðsmálin og hvort ráðast eigi í breytingar á því sviði.

„Við höfum hingað til alfarið verið með okkar sölustarfsemi eingöngu héðan frá okkar skrifstofu. Markaðsfólk okkar er allt staðsett hér í Reykjavík, sem kostar mikil ferðalög að vísu og annað slílkt. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel en það er alltaf hugsanlegt að fara með það með einhverjum hætti nær markaðnum. Það er ekkert útilokað,“ segir hann en tekur líka fram að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum.

Hann segir heldur ekkert liggja fyrir um neinar breytingar á starfseminni í kjölfar eigendabreytinga, en sem kunnugt er keypti Guðmundur Kristjánsson í Brimi nýverið 34 prósenta hlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í fyrirtækinu.

Viðbót: Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins komin
Nú á miðvikudaginn, sama dag og Fiskifréttir fóru í prentun, kom úrskurður Samkeppiseftirlitsins um kollagenverksmiðjuna sem Vilhjálmur minnist á í þessu viðtali.

„Samkeppniseftirlitið getur ekki séð út frá gögnum málsins að viðkomandi samruni leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ segir í úrskurðinum.

“Á grundvelli þess telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tengslum við þennan samruna.“