mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komið verði í veg fyrir beinar veiðar

11. maí 2018 kl. 13:05

Fylgst hefur verið nokkuð reglulega með breytingum á stofnstærð landsels síðan 1980 og útsels síðan 1982. Aðsend mynd

Bæði landsel og útsel hefur fækkað gríðarlega á tiltölulega stuttum tíma – varað er við frekari samdrætti í stofnunum.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur undir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar til stjórnvalda um að leitað verði leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel, að meðafli þeirra við fiskveiðar verði lágmarkaður, að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar við Ísland og að skráningar á öllum selveiðum verði lögbundnar.

Þetta kemur fram í nýjasta fjölriti Náttúrufræðistofnunar – Selalátur við strendur Íslands.

Íslenski landselstofninn er nú talinn tæp 8.000 dýr en var um 33.000 dýr þegar talningar hófust um 1980. Landsel hefur því fækkað um 77% . Árið 2010 settu stjórnvöld á Íslandi fram viðmið um að landselsstofninum skyldi viðhaldið í þeirri stofnstærð sem var áætluð árið 2006, um 12.000 dýr.

„Ýmsar mögulegar skýringar eru á fækkun landsels, fyrir utan veiðar, til dæmis fæðuskortur, umhverfisbreytingar og sjúkdómar. Netaveiðar á hrognkelsi í Breiðafirði og stofnbrestur sandsílis suður og vestur af landinu gætu skýrt staðbundna fækkun landsels á þessum svæðum. Einnig hefur verið sýnt fram á að tíðar mannaferðir í selalátur hafi neikvæð áhrif á fjölda og dreifingu sela í látrum,“ segir í riti Náttúrufræðistofnunar.

Við hættumörk

Þótt talningar hafi ekki farið fram árlega á útsel bendir eigi að síður allt til þess  að útsel hafi einnig fækkað mikið. Áætluð stofnstærð var mest árið 1990, um 10.000 dýr, en árið 2005 hafði þeim fækkað um rúman helming og stofninn dregist saman í um 6.000 dýr. Ýmsir þættir hafa áhrif á stofnstærð útsels, t.d. veiðar, sjúkdómar og umhverfisbreytingar á borð við hlýnun sjávar, sem hefur áhrif á fæðuframboð.

„Árið 2005 settu stjórnvöld fram stjórnunarmarkmið fyrir útselsstofninn við Ísland og var þá miðað við um 4.100 dýr sem var áætluð stofnstærð árið 2004. Árið 2012 var útselsstofninn metinn nálægt þessum viðmiðunarmörkum og ástæða til að vara við frekari samdrætti í stofninum;“ segir í ritinu.

Nefnd til höfuðs selnum

Þar segir jafnframt frá því að fyrr á öldum voru landselur og útselur aðallega nýttir til neyslu hérlendis en síðar var einkum sóst eftir skinnum kópa.

„Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar varð verðfall á selskinnum á mörkuðum og eftir það dróst veiði verulega saman. Veiðin jókst aftur 1982 fyrir tilstuðlan hringormanefndar sem greiddi fyrir veidda seli fram til ársins 1990. Markmið nefndarinnar var að fækka sel og draga úr efnahagslegu tjóni sem þeir voru taldir valda, sem millihýslar við hringormasmit í þorskfiskum og vegna meintrar ágengni þeirra í laxastofna. Eftir 1986 dró úr veiði og skráður heildarafli árin 2002–2012 var tæp þúsund dýr. Skráning selveiði er ekki bundin í lög og veiðitölur eru að ýmsu leyti mjög ófullkomnar.“

Langstærsti hluti landselsveiða er á ósasvæðum laxveiðiáa til að lágmarka hugsanleg áhrif landsela á laxastofna. Nýlegar rannsóknir benda hinsvegar til að laxfiskar séu ekki mikilvæg fæðutegund sela.