mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komnir í yfir 50 verslanir og 20 netverslanir

Guðjón Guðmundsson
3. júlí 2019 kl. 16:00

Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildi. MYND/EVA BJÖRK

Vel heppnuð útrás Margildis á Bretlandseyjum með síldarlýsi.

Nýsköpunarfyrirtækið Margildi hefur náð athyglisverðum árangri í sölu á hágæðalýsi (omega-3) sem unnið er úr íslenskri síld fyrir Bretlandsmarkað. Um fjórar vörur er að ræða og hefur sala hafist undir vörumerkinu FISKOLÍA í ríflega 50 heilsuvöruverslunum í Bretlandi og á Írlandi og auk þess einnig á netinu.

Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis, kveðst sérlega sáttur við árangurinn ekki síst í ljósi þess að litlu sem engu hafi verið kostað til við markaðssetningu vörunnar.

„Við hófumst handa við sölu á vörunni í Bretlandi í nóvember og erum stoltir af því hvernig til hefur tekist. Þetta hefur eiginlega gengið vonum framar. Það er svo merkilegt að verkefnið hefur vaxið hraðar en við áttum von á. Það hefur ekkert annað íslenskt vörumerki innan heilsuvöru- eða fæðubótarefna náð viðlíka árangri á Bretlandseyjum svo mér sé kunnugt um,“ segir Snorri.

Sala hefst í Revital

„Við erum komin með yfir 50 útsölustaði og 20 netverslanir sem sumar hverjar eru að dreifa á heimsvísu. Við höldum sölutölunum fyrir okkur en við getum orðað það þannig að við erum ánægðir. Í nóvember áttum við kannski von á því að ná inn í 5 verslanir en alls ekki 50. Þar sem umfangið hefur vaxið hraðar en reiknað var með, þarf að auka hlutafé Margildis, svo takast megi að fylgja markaðssetningunni nægilega vel eftir, en við lítum á það sem dálítið lúxusvandamál.“

Um er að ræða sérhæfðar heilsuvöruverslanir vítt og breitt um Bretlandseyjar. Margildi gekk nýlega frá samningum við stærstu keðjuna á þessu sviði sem heitir Revital og rekur 19 verslanir. Sala á hágæðalýsinu hófst í verslunum Revital í byrjun júní. Þetta mun vera stærsti og mikilvægasti viðskiptavinur Margildis um þessar mundir.

Sækja fjármuni í markaðsstarf

„Við höfum í raun gert þetta með berum höndunum, ef svo má að orði komast,en núna í framhaldinu er stefnt að því að Margildi sæki sér aukna fjármuni í markaðsstarfið með hlutafjáraukningu. Þetta er orðið það mikið að umfangi og það þarf að styðja við verkefnið með aukinni markaðssetningu gagnvart neytendum. Við höfðum séð fyrir okkur að byrja frekar rólega til að sýna fram á að varan ætti tilverurétt á neytendamarkaði. En núna snýst málið um framleiðslu og sölu af allt annarri stærðargráðu sem breytir talsverðu í áformum okkar.“

Rótgróin hefð 

Snorri segir að það hafi verið með vilja sem valið var að herja á Bretlandsmarkað fremur en aðra markaði. Rótgróin hefð er fyrir neyslu lýsis þar alveg frá stríðsárunum þegar Íslendingar hófu að sjá Bretum fyrir þorskalýsi sem þeir gera enn. Síld er býsna vel þekkt í Bretlandi fyrir gæði og hollustu sem vinnur þannig á jákvæðan hátt með markaðssetningunni. Þorskalýsi er ekki þekkt fyrir bragðgæði en síldarlýsið er ákaflega bragðgott og hefur tvö ár í röð hlotið Superior Taste Awards sem eru alþjóðleg gæðaverðalun veitt af International Taste and Quality Institute (iTQi)

Margildi hefur þróað aðferð til að vinna hágæðalýsi úr hrálýsi úr síld, makríl og loðnu til manneldis. Aðferðin er svokölluð hraðkaldhreinsun og notuð er hliðstæð tækni og þekkt er í lýsisiðnaði en aðrir ferlar voru þróaðir til að kristalla lýsið og sía. Við kristöllunina tekur mettaða (harða) fitan í lýsinu á sig mynd og hægt er að skilja hana frá lýsinu þannig að það er tært og fljótandi beint úr ísskáp með hærra hlutfall fjölómettaðra fitusýra. Margildi hefur nú einkaleyfi fyrir aðferðinni hérlendis og í umsóknarferli á heimsvísu. AVS rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður hafa ásamt Uppbyggingarsjóði Austurlands styrkt starfsemi Margildis myndarlega hingað til og er ætlunin að sækjast eftir frekari styrkjum til markaðsstarfs.

Hefðbundinn lýsisiðnaður og lifrarniðursuðuiðnaður býr við talsvert hátt lifrarverð og samkeppni um hráefnið. Þó hefur lokun Rússlandsmarkaðar fyrir niðursoðna lifur vegið upp á móti þessu. Lýsisvinnsla úr uppsjávartegundum býr við ágætis framboð hráefnis. Að meðaltali síðastliðin tíu ár hafa verið unnin hérlendis um 40-45 þúsund tonn af hrálýsi úr loðnu, síld og makríl en loðnuveiðar eru of sveiflukenndar til að hægt sé að treysta á þær. Norðmenn eru að ljúka byggingu á tveimur nýjum manneldisvottuðum verksmiðjum sem munu vinna lýsi úr makríl og síld þannig að Margildi hefur af nægu hráefni að taka.

Síldarlýsi með andoxunarefnum 

Nú leggur Margildi mesta áherslu á framleiðslu og sölu á hágæðalýsi úr síld. Fyrirtækið hefur kynnt síldarlýsi með astaxanthin andoxunarefninu sem var afrakstur vöruþróunarsamstarfs við íslenska nýsköpunarfyrirtækið SagaNatura sem framleiðir andoxunarefnið úr þörungum.

Snorri segir að einn helsti styrkleiki síldarlýsisins sé stöðugleikinn og lágt oxunarhlutfall sem bragðgæðin staðfesti svo vel. Það þráni hægt og haldi því bragðgæðum margfalt lengur en annað lýsi. Astaxanthin eyðist að hluta til upp í blöndu með þorskalýsi en það henti vel til íblöndunar í síldarlýsi. Hráefnið er hrálýsi sem er framleitt hérlendis hjá HB Granda og Síldarvinnslunni en Margildi hyggst reisa lýsishreinsiverksmiðju á Austurlandi til að sjá um framleiðsluþáttinn. Þar er um að ræða verksmiðju sem reist verður í tveimur áföngum; annars vegar 2.000 tonna verksmiðja og hins vegar 4.500 tonna verksmiðja.

Skemmtileg útrás

„Við höfum alls ekki horfið frá þessum byggingaráformum en eins og gengur og gerist með nýsköpun hafa tímaáætlanir ekki gengið fullkomlega eftir. Að öðru leyti hefur verkefnið verið á góðri siglingu. Þegar við höfum unnið vörunni brautargengi á markaði þá reiknum við með að láta þennan draum okkar um verksmiðjuna rætast.“

Snorri segir að framundan sé að skipuleggja sérstaklega fjármögnun vegna útrásarinnar í Bretlandi. Stefnt sé að því að sækja rúmar 100 milljónir út á markaðinn með útgáfu hlutabréfa.

„Þetta er skemmtileg útrás og niðurstöðurnar í Bretlandi gera það að verkum að við erum mjög bjartsýn á framtíð fyrirtækisins.“