laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Komst af sjálfsdáðum í Barentshaf

16. mars 2020 kl. 15:16

Snjókrabbi

Snjókrabbinn í Barentshafi barst líklega ekki þangað með kjölfestuvatni skipa.

Erfðagreining sýnir að uppruna snjókrabbans í Barentshafi sé hvorki að finna við austurströnd Kanada né vesturströnd Grænlands.

Þetta fullyrðir norska hafrannsóknastofnunin, Hafvorskningsinstituttet (HI), og segir að þar með sé kenningin líklega fallin um að snjókrabbinn í Barentshafi hafi borist þangað með kjölfestuvatni.

Það var árið 1996 sem snjókrabba varð fyrst vart í Barentshafi, en heimkynni hans höfðu áður verið bundin við Beringshaf, austurströnd Kanada og vesturströnd Grænlands.

Geir Dahle, sérfræðingur á HI, segir því líklegast að hann hafi komið sér sjálfur úr Beringssundi yfir í Barentshaf, meðfram norðurströnd Rússlands.

„Við höfum ýmis dæmi um náttúrlega þróun af þessu tagi, þar sem tegundirnar ferðast inn á ný svæði, og það er ekkert nýtt að tegundir úr Kyrrahafi finnist í Atlantshafi,“ er haft eftir Dahle á vef HI.

Gerðar voru rannsóknir á um það bil 830 snjókröbbum úr Barentshafi, Beringshafi og úr hafinu við Kanada og Grænland.

Minnstur skyldleiki Barentshafskrabbanna reyndist vera við snjókrabbann við Grænland, enda þótt vegalengdin þangað sé styst.

Næst er meiningin að gera sams konar rannsóknir á snjókrabba sem finnst við norðurströnd Rússlands, svo rekja megi betur ferðir tegundarinnar.