laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Konur í sjávarútvegi verðlaunaðar

23. maí 2017 kl. 13:40

Freyja Önundardóttir formaður félagsins tók við viðurkenningunni úr hendi Jens Garðars Helgasonar formanns SFS.

Hlutu hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Félagið Konur í sjávarútvegi (KIS) hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins sem veitt voru á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í síðustu viku. Verðlaunin eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg.

Með stofnun félagsins skapaðist öflugur vettvangur fyrir konur sem starfa í sjávarútvegi og greinum tengdum honum til að efla tengslanet og samstarf og kynna sjávarútveginn sem öfluga og fjölbreytta atvinnugrein. Félagið hefur staðið að viðamikilli rannsókn á aðkomu kvenna að sjávarútvegi þar sem kortlögð eru tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveginn með aukinni þátttöku og eflingu kvenna innan greinarinnar.

Í félaginu eru nú rúmlega 200 konur og geta allar konur sem starfa innan haftengdrar starfsemi gerst félagar. Félagskonur koma alls staðar að, m.a. úr sjávarútvegsfyrirtækjum, markaðs- og sölufyrirtækjum, viðskiptabönkum, fiskeldisfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, tæknifyrirtækjum og flutningafyrirtækjum.