fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kræklingaverksmiðja á Króksfjarðarnesi

27. júní 2012 kl. 13:41

Kræklingur.

Ræktun og vinnsla að komast í fullan gang.

Ræktun og vinnsla og síðan útflutningur á bláskel (kræklingi) er að komast í fullan gang hjá fyrirtækinu Icelandic Mussel Company ehf. (IMC) í gamla sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi, að því er fram kemur á Reykhólavefnum. Frumkvöðlar fyrirtækisins eru þeir bræður Bergsveinn  og Sævar Reynissynir, upprunnir í Gufudal.

Frá því að búnaðurinn í verksmiðjuna var keyptur  í Noregi í apríl 2010 hefur verið unnið að prufuræktun á skel og uppsetningu tækjanna. Núna á vormánuðum kom nýr fjárfestir inn í fyrirtækið og síðan hefur verið unnið á fullu að ýmsum frágangi.

„Nú er svo komið að við getum farið af fullum krafti í að safna botnskel úr Þorskafirði og víðar, keyra hana gegnum vinnsluna til flokkunar og setja í sokka út á línur til áframræktunar. Við stefnum á að fyrsta skelin fari í sölu í september,“ segir Bergsteinn í samtali á vefnum. 

Í dag eru átta starfsmenn hjá fyrirtækinu og fer þeim fjölgandi.