laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kría fjárfestir í nýsköpun

Guðsteinn Bjarnason
14. apríl 2020 kl. 08:00

Guðmundur Hafsteinsson, sérfræðingur í nýsköpun og Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans. Myndir/HAG

Breytt fyrirkomulag við fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnti fyrir skömmu drög að frumvarpi um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Ætlunin er að stofna sjálfstæðan sjóð í eigu ríkisins, sem fær heitið Kría. Þessi sjóður á að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum, svokölluðum „venture capital“ sjóðum eða „vísisjóðum“ eins og það hefur verið nefnt, það er að segja sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Sjóðir af þessu tagi komu til tals í miðvikudagsfundaröð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þegar Guðmundur Hafsteinsson sagði það geta verið gott fyrir íslenskan sjávarútveg að tileinka sér þau vinnubrögð sem tíðkast hafa í Kísildalnum í Kaliforníu.

Hann starfaði þar í fimmtán ár, hjá stórfyrirtækinu Google þar sem hann var yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant og vann einnig að því að koma Google Maps á markað.

„Fólkið sem er með hugmyndirnar selur hluta í fyrirtækinu til fjárfesta og fær síðan ávöxtun ef vel gengur,“ sagði Guðmundur á síðasta fundinum, sem streymt var á netinu í síðustu viku. „Það væri gott fyrir okkur að tileinka okkur þessi vinnubrögð vegna þess að þetta tryggir að flestir verða sáttir til lengri tíma litið.“

Á rætur í hvalveiðum

Þetta sé ekki fyrir fólk sem ætlar sér að hoppa á vagninn og verða ríkt á skömmum tíma. „Þarna reynir jafnt á fjármagn og hugvit.“

Hann sagði þessa hugmynd raunar eiga sér rætur í hvalveiðum á 19. öld og á fundinum var bent á hliðstæðu við launakerfi íslenskra sjómanna, sem fá hlut í aflanum.

Berta Daníelsdóttir, framkvæmastjóri Sjávarklasans, tók undir þetta og sagði hugmyndina um VC-sjóð eða vísisjóð frábæra. Þau í Sjávarklasanum hafi einmitt verið að kynna slíkar hugmyndir fyrir fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Bæði Guðmundur og Berta sögðu stór fyrirtæki oft eiga erfiðara með að fóta sig í nýsköpunarverkefnum.

Þau stóru oft svifasein

„Alvöru nýsköpun á sér ekki stað í stórum fyrirtækjum,“ sagði Guðmundur og Berta tók í sama streng. Stærri fyrirtækin séu oft þung í vöfum og starfið þar svo í föstum skorðum að nýsköpunarstarf rúmist þar illa.

Í greinargerð með frumvarpinu, sem nú er opið í Samráðsgátt stjórnvalda, segir að verið sé að leggja til „umgjörð utan um aðkomu ríkisins að ákveðinni tegund af

sérhæfðum sjóðum sem kallaðir eru í daglegu tali vísisjóðir (e. venture capital funds) en slíkir sjóðir eru sérhæfðir áhættufjárfestingarsjóðir.

Þar segir einnig að slíkir sjóðir séu „ólíkir hefðbundnum fjárfestingarsjóðum meðal annars að því leyti að þeir hafa að jafnaði meiri áhrif á stefnumótun, rekstur og almenna ákvarðanatöku í þeim fyrirtækjum sem sjóðirnir fjárfesta í.“

Nefnt er að nokkrir slíkir sjóðir hafi verið stofnaðir hér á landi á undanförnum áratug, og fjárfestar í þeim séu að mestu leyti lífeyrissjóðir en einnig hafi einstaklingar, bankar og fagfjárfestafélög tekið þátt í slíku starfi.

Guðmundur var formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, sem sendi frá sér skýrslu í október síðastliðnum Nýsköpunarlandið Ísland.

Liður í þeim breytingum sem nú er verið að gera á nýsköpunarstefnu var að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður, eins og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir nýsköpunarráðherra boðaði í síðasta mánuði.

Greinin birtist í Fiskifréttum 2. apríl sl.