fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kræklingur drapst í tonnatali vegna súrefnisskorts

9. maí 2010 kl. 11:00

Kræklingabændur og veiðimenn í Limafirði í Danmörku urðu fyrir miklum búsifjum vegna frosthörku í vetur. Fjörðinn lagði og ísinn olli súrefnisskorti. Nú liggur fyrir mat á tjóninu og talið er að meira en 100 þúsund tonn af kræklingi hafi drepist af súrefnisskorti.

Líffræðingar tóku nýlega myndir á hafsbotni til að kortleggja ástandið og kræklingaveiðimenn hafa farið á tilraunaveiðar. Á stórum svæðum hefur helmingur kræklingsins drepist. Sérstaklega er ástandið þó slæmt þar sem fjörðurinn er grynnstur. Lífríkið þar er eins og eftir náttúruhamfarir.

Súrefnisskortur er ekki óþekkt fyrirbæri í Limafirði á sumrin þegar mikið magn áburðarefna frá landbúnaði smitast út í sjóinn. Súrefnisskortur að vetri til er hins vegar óvenjulegur.