mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kröfðust banns við brottkasti en hunsa það sjálfir

Svavar Hávarðsson
25. febrúar 2019 kl. 07:00

Fiskveiðifloti Breta er 80% bátar undir 30 tonnum. Mynd/EPA

Brottkastreglum Evrópusambandsins hefur aldrei verið fylgt þó þær séu nú í fullu gildi

Þrátt fyrir að Bretar hafi farið fremst í flokki við að krefjast strangari reglna um brottkast á fiski innan Evrópusambandsins á sínum tíma sýnir rannsókn að því fer fjarri að nefndar reglur séu virtar af þeim sjálfum. Þarlendir útgerðarmenn og sjómenn fara sínu fram sem löngum fyrr enda hafa stjórnvöld dregið lappirnar við að innleiða reglurnar eða fylgja þeim hluta þeirra eftir sem þó hafa tekið gildi.

Reglunum (The Landing Obligation) er ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski sem talinn er lítils virði við löndun, eða á fiski sem viðkomandi sjómaður á ekki rétt á því að veiða sökum kvótaleysis. Þegar reglurnar voru settar er talið að sautjánhundruð þúsund tonnum af fiski hafi verið hent aftur í sjóinn við veiðar Evrópusambandslanda. Svo misboðið var hópi fólks að ráðist var í undirskriftasöfnun til að ýta á bætt regluverk fyrir veiðarnar – en andlit þeirrar söfnunar var breski matreiðslumaðurinn Hugh Fearnley-Whittingstall, en áskorun hans var beint til þáverandi fiskveiðistjóra Evrópusambandsins, Maríu Damanaki, um að brottkast á fiski verði þegar í stað bannað innan Evrópusambandsins. Aðstandendum söfnunarinnar ofbauð sóunin sem viðgekkst undir regluverki ESB, og kallaður alvarlegasti ágalli hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins, Common Fisheries Policy.

Í umfjöllun fréttamiðilsins Seafoodsource segir að þegar 870.000 undirskriftir lentu á borði Damanaki var samþykkt innan sambandsins að setja regluverk til að enda brottkastið og að öllum fiski skyldi landað. Reglurnar hafa frá árinu 2013 hægt og bítandi verið teknar upp, og að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Kíkirinn við blinda augað

Þrátt fyrir þennan langa aðlögunartíma kom í ljós við rannsókn undirnefndar Evrópusambandsins í lok síðasta árs að það er langur vegur frá því að umgengni við auðlindina hafi breyst til batnaðar, í þeim anda sem regluverkið býður. Reglurnar eru til staðar en það er ekki farið eftir þeim, og virðist það fyrst og síðast vera vegna skeytingarleysis stjórnvalda. Útgerðarmennirnir sjálfir, og sjómennirnir, halda því fast í rótgróna siði, enda ekki viljugir til að halda öllum veiddum fiski um borð og flokka hann sérstaklega til löndunar. Tilgangur regluverksins – að stuðla að sjálfbærum veiðum og afla upplýsinga um þær tegundir sem kastað hefur verið í sjóinn – hefur því aldrei náðst.

Öfugsnúin áhrif

Niðurstaða nefndarinnar sem gerð rannsóknina er að núverandi staða komi á óvart, þar sem breytingarnar mættu engri andstöðu á sínum tíma. Ekkert hafi í raun staðið í vegi þess að aflaheimildum yrði úthlutað í samræmi við reglurnar og að taka upp eftirlit sem styddi við regluverkið – þar á meðal myndavélaeftirlit. Þvert á móti, segja nefndarmenn, að líklegt er að brottkastið viðgangist áfram, enda ekkert í kortunum um að tekið verði upp eftirlit á sjó sem er forsenda breytinga til batnaðar.

Þó öfugsnúið sé þá hafa veiðiheimildir í einstökum tegundum verið auknar á þeim forsendum að reglum um brottkast sé fylgt – sem er þó ekki raunin. Því geti reglurnar, og geri það nú þegar, unnið gegn upphaflegum tilgangi þeirra og sé ástæða ofveiði. Aflaúthlutun geri ráð fyrir að reglunum sé fylgt, þó allir sem að veiðum og vinnslu standa viti að svo er ekki.