þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kryfur starfsemi og eftirlit Fiskistofu

Svavar Hávarðsson
16. mars 2018 kl. 10:37

Blandaður afli um borð í veiðiskipi. (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Alþingi samþykkti að ríkisendurskoðun vinni sérstaka úttekt vegna umfjöllunar um brottkast og vigtun afla.

Alþingi veitti heimild sína í síðustu viku fyrir því að ríkisendurskoðun taki saman skýrslu um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum og hvort hún sinni lögbundnu hlutverki sínu.

Beiðni um úttekt ríkisendurskoðanda kom frá hópi þingmanna Samfylkingar og Pírata, en Oddný G. Harðardóttir, þingsflokksformaður Samfylkingarinnar, lagði beiðnina fram fyrir hönd hópsins.

Í greinargerð segir að tilefni málsins sé umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á Rúv 21. nóvember síðastliðinn, en þar komu fram ábendingar um að Fiskistofu tækist ekki að uppfylla skyldur sínar lögum samkvæmt, en stofnunin fer meðal annars með eftirlit með fiskveiðum.

Alvarlegt ef satt reynist

„Fullyrt hefur verið að fyrir liggi vísbendingar um brot a.m.k. gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, sem feli í sér annars vegar brottkast afla og hins vegar ranga vigtun afla. Einnig kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem fer með málefni sjávarútvegs, ætti að vera kunnugt um framangreint. Flutningsmenn telja brýnt að gerð verði úttekt á málinu enda verður að telja brot á þessu sviði mjög alvarleg. Ekki verður við það unað að til séu hvatar í kerfinu til að fara fram hjá reglum, sérstaklega ekki fyrir fiskveiðiþjóð sem stærir sig af ábyrgum og sjálfbærum veiðum,“ segir í greinargerðinni.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, steig í pontu við afgreiðslu málsins, sem var samhljóða samþykkt af öllum þingmönnum sem voru viðstaddir umræðuna, og fagnaði framtakinu.

„Ég hafði lýst því yfir opinberlega að ég hygðist láta fara fram úttekt á stjórnsýslu og rekstri Fiskistofu. Í ljósi þess að ég geri ráð fyrir því að skýrslubeiðnin verði samþykkt hyggst ég taka til baka áform mín, a.m.k. um sinn, þar sem þá yrði hreinlega um tvíverknað að ræða. En ég lýsi enn og aftur yfir stuðningi við skýrslubeiðna og tel að hún geti orðið gott innlegg í það nauðsynlega verk sem var fram undan er varðandi endurskoðun á lögum um vigtun sjávarafla. Unnið hefur verið að því í tíð fjögurra síðustu sjávarútvegsráðherra þannig að málið er snúið. Ég vænti þess að þetta verk geti orðið gott innlegg í þá vinnu sem fram undan er,“ sagði ráðherra.

Fjölmörg álitamál

Það sem þingmenn stjórnarandstöðuflokkana biðja um er meðal annars eftirfarandi eins og kemur fram í þingskjölum. Mat á árangri af eftirlitshlutverki Fiskistofu þar sem skoðað verði sérstaklega hvernig staðið hefur verið að eftirliti með vigtun á afla undanfarin 5 ár og rannsókn og eftirfylgni brotamála. Eins sömu atriði er varða brottkast afla.

Eins hvernig brugðist sé við upplýsingum um brot og hvort ákveðnum vinnureglum sé fylgt um rannsókn og eftirfylgni mála. Hvernig fjárveitingar til stofnunarinnar hafi þróast undanfarin 10 ár og hver hafi verið fjöldi starfsmanna á sama tímabili.

Þá er spurt hvaða áhrif brottkast og röng vigtun hafi á upplýsingar um hversu stór hluti sjávarauðlindarinnar er í raun nýttur og hvaða áhrif röng vigtun sjávarafla hafa á laun sjómanna og tekjur hafna.

Í samþykktri beiðni frá Alþingi er gert ráð fyrir að skýrslunni verði skilað til Alþingis fyrir 1. júní næstkomandi.