laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótablað Fiskifrétta komið út

9. september 2010 kl. 13:52

Sérstakt kvótablað fylgir Fiskifréttum í dag en þar eru birtir listar yfir kvóta allra íslenskra skipa og báta í upphafi nýs fiskveiðiárs. Jafnframt er birtur listi yfir 50 kvótahæstu útgerðirnar.

Alls 644 skipum og bátum er úthlutað aflaheimildum að þessu sinni. Þetta er 34 skipum færra en fyrir einu ári. Þróunin á undanförnum árum er öll á einn veg: Skipum og bátum með aflamark eða krókaaflamark fækkar ár frá ári.

Kvótablað Fiskifrétta kemur nú út í áttunda sinn og er blaðið hugsað sem handbók fyrir þá sem vilja fá upplýsingar um hvernig kvótinn skiptist á einstök skip, útgerðarflokka, heimahafnir o.fl. Skipunum er raðað í stafrófsröð innan hvers útgerðarflokks svo auðvelt sé að finna viðkomandi skip og bera saman við önnur skip.