sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Kvótakerfið er grundvöllur arðbærni í sjávarútvegi"

19. nóvember 2008 kl. 13:52

Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík, segir að hann fái með engu móti skilið þá umræðu að einhver lausn felist í því að riðla núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

„Kvótakerfið er grundvöllur arðbærni í sjávarútvegi, önnur meginstoðanna sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína á,” segir Eiríkur í samtali við vef LÍÚ þar sem þetta kemur fram.

Eiríkur efast ekki um kvótakerfið og telur hagræðinguna sem því hefur fylgt vera ótvíræða. Hann segir hagræðinguna birtast í því að kvóti fjölda skipa hafi færst yfir á færri skip, sem leitt hafi til þess að útgerð þeirra hafi styrkst.

„Við erum með sjö skip í rekstri og sennilega erum við að veiða kvóta af 45 skipum,“ segir Eiríkur í samtali við vef LÍÚ og bætir því við að hagræðing þessu samfara gefi auga leið. Hann segist efast um að hægt væri að manna öll þau 45 skip sem um ræðir, hvað þá heldur að reka útgerð þeirra með hagnaði.

Þá kemur fram að Eiríkur segir hagræðinguna ekki aðeins hafa átt sér stað í útgerðinni heldur einnig í fiskvinnslu. Hann tekur heimabæ sinn, Grindavík, sem dæmi.

„Áður en kvótakerfið kom til sögunnar var hálfur annar tugur fiskvinnsla í bænum. Í dag eru þær 3-4 sem eitthvað kveður að. Þessi sama þróun hefur átt sér stað alls staðar á landinu. Afleiðingin er arðbærari rekstur,“ segir Eiríkur.

Hann bætir því við að hagræðingin skili sér til fleiri aðila en útgerða og fiskvinnslu. Starfsfólk hafi nú öruggari atvinnu og stöðugri tekjur. Þá stórbæti jafnara framboð af fiski aðgengi að kaupendamörkuðum.

„Nú geta kaupendur treyst á að við getum afhent vöruna á umsömdum tíma allan ársins hring,“ segir Eiríkur.