þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótalausir þurrkaðir út

8. október 2009 kl. 12:13

,,Við erum í hópi kvótalítilla og kvótalausra báta og ég sé ekki betur en þessi floti verði þurrkaður út ef fram heldur sem horfir. Við getum verið að veiðum til áramóta en ætli við þurfum þá ekki að stoppa eins og allir hinir,” sagði Óskar Gíslason útgerðarmaður dragnótabátsins Valgerðar BA frá Patreksfirði í samtali við Fiskifréttir.

Vegna niðurskurðar aflaheimilda, einkum í þorski, ýsu, ufsa og skötusel, er nánast engan kvóta að hafa á leigumarkaðinum. ,,Við fengum smávegis leigt af ýsukvóta á 120 krónur kílóið en til samanburðar má nefna að verðið á síðasta fiskveiðiári var 40 krónur. Núna er ýsukvótinn kominn upp í 170 krónur ef hann fæst á annað borð. Það er auðvitað engin glóra í því,” sagði Óskar.

Að sögn Óskars leigði útgerðin til sín um 1300 tonna kvóta á nýliðnu fiskveiðiári, þar af um 800 tonn af ýsu og 300 tonn af þorski. Nú situr allt fast á leigumarkaðnum.

Ítarlega er fjallað um þetta ástand í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.