laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótaleiga á að gefa ríkissjóði 100 milljónir

22. október 2010 kl. 08:39

Iðnaðarráðuneytið fær 60 milljónir af kvótaleigunni

Kvótaleiga á að gefa ríkissjóði um 100 milljónir króna í tekjur á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Í frumvarpinu er ekki vikið að nýjasta útspili sjávarútvegsráðherra um leigu á hugsanlegum viðbótarheimildum í þorski og fleiri tegundum.

Sjávarútvegsráðherra hefur heimild til að leigja allt að 2 þúsund tonnum af skötusel á næsta ári. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi leiga skili 60 milljónum króna. Um 24 milljónum af upphæðinni, eða 40%, á að ráðstafa til AVS-sjóðsins (aukið virði sjávarafurða) en 36 milljónum í sérstakt átak til atvinnusköpunar hjá iðnaðarráðuneytinu.

Þessu til viðbótar hefur ráðherra heimild til að leigja út 200 tonn af óslægðum botnfiski til frístundaveiðibáta. Þetta á að gefa ríkissjóði 40 milljónir króna sem skiptast hlutafallslega jafnt og tekjur af leigu á skötusel. AVS-sjóðurinn fær því 16 milljónir. Samtals fær AVS 40 milljónir í tekjur vegna kvótaleigu en átak iðnaðarráðuneytisins fær 60 milljónir.