föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótar kynntir upp á 488.000 tonn

1. apríl 2020 kl. 11:30

Makrílkvóti sumarsins hefur verið gefinn út og er leyfilegur heildarafli 152.000 tonn. Mynd/Þorgeir Baldursson

Árskvótar deilistofna uppsjávarfisks, makríls, norsk-íslenskrar síldar og kolmunna, gefnir út fyrr og með því stuðlað að auknum fyrirsjáanleika við veiðarnar. Hluti af aðgerðum vegna COVID - 19.

Gefnar hafa verið út reglugerðir um veiði íslenskra skipa úr þremur stofnum uppsjávarfisks árið 2020; makríls, norsk-íslenskrar síldar og kolmunna. Þegar útgefnir kvótar eru dregnir saman verða heimilar veiðar á rúmlega 488.000 tonnum úr þessum þremur stofnum.

Eins og greint var frá kynnti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag aðgerðir á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs til að bregðast við áhrifum COVID-19 veirunnar á þessar greinar.

Ein þeirra var að árskvótar deilistofna uppsjávarfisks yrðu gefnir út fyrr og með því stuðlað að auknum fyrirsjáanleika við þessar veiðar.

Um veiðar á makríl 2020 segir í reglugerð sem var gefin út á mánudag að leyfilegur heildarafli makríls í sumar verður 152.000 tonn. Á árinu 2019 var leyfilegur heildarafli makríls 140.000 tonn rúm.

Í frétt frá ráðuenytinu segir: „Allt frá því að samkomulag Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins gekk í gildi árið 2014, hefur Ísland miðað ákvarðanir sínar út frá 16,5% og ákvörðunum þeirra um heildarafla hverju sinni, ef undan er skilið síðasta ár þegar ákvörðun Íslands miðaðist við 16,5% af samanlögðum yfirlýstum kvótum allra aðila.

Á síðasta ársfundi NEAFC (The North East Atlantic Fisheries Commission) var samþykkt tillaga þess efnis að miða skuli heildarafla ársins 2020 við 922.064 tonn, óháð ósamkomulagi um skiptingu. Þar sem Ísland er ekki aðili að makrílsamkomulagi, þá reiknast 16,5% af 922.064 tonnum sem 152.141 tonn.

Úr norsk-íslenska síldarstofninum verða leyfðar veiðar á rúmlega 91.000 tonnum. Það er minna en í fyrra þegar leyfilegur heildarafli var útgefinn 102.000 lestir rúmar.

Þá eru útgefnar veiðiheimildir í kolmunna 245.000 tonn, sem er um 4.000 tonnum meira en gefið var út fyrir árið 2019.

Um breytingu á fyrri reglugerðum er að ræða hvað varðar kolmunna og norsk-íslenska síld. Viðbótarúthlutun í kolmunna nemur 53.573 tonnum en í norsk-íslenskri síld nemur hún 14.185 tonnum.

Í frétt ráðuneytisins segir jafnfram: „Sem viðleitni af hálfu Íslendinga til að hreyfa við viðræðum strandríkjanna í deilistofnunum þremur, þá voru um áramót gefnar út reglugerðir í norsk-íslenskri síld og kolmunna í samræmi við síðustu samþykktu samningstölu. Í ljósi þess að þessi viðleitni hefur ekki hlotið undirtektir samningsaðilanna, þá hefur ráðherra endurskoðað þessar ákvarðanir og hefur ákveðið að miða við sama hlutfall af samþykktri heildarveiði NEAFC og fyrir síðasta ár sem  var 17,36% fyrir norsk-íslenska síld og 21.1% í tilviki kolmunna. Með þessu er Ísland þó ekki að fylgja fordæmi annarra strandríkja sem hafa hækkað hlut sinn frá síðasta ári.“