sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvótastaðan hefur batnað á Snæfellsnesi

7. ágúst 2008 kl. 12:23

Kvótastaða stærstu byggðarlaganna á Snæfellsnesi hefur batnað gríðarlega síðustu 16 árin í samanburði við kvótastöðu einstakra byggðarlaga. Snæfellsbæ hefur á þessu tímabili haldist hlutfallslega best á kvótanum og bætt við sig líkt og Grindavík, Vestmannaeyjar, Reykjavík og Akureyri, að því er fram kemur í frétt á vef Snæfellsbæjar.  

Kvótaeign Snæfellsbæjar á kvótaárinu 1991-1992 var 3,1% eða 14.700 þorskígildistonn. Milli hafnanna skiptist það þannig að 2,1% var í Ólafsvík, 0,7% í Rifi og 0,3% á Hellissandi. Á síðasta kvótaári voru samtals 4,4% kvótans í Snæfellbæ, eða 23.800 þorskígildistonn.

  Kvótaeign í Snæfellsbæ hefur því aukist um rúmlega 9.000 þorskígildistonn á 16 ára tímabili. Það er allt að 70% aukning. Þar var Ólafsvík komin í 1,4%, en samtals í Rifi og á Hellissandi var kvótinn 3%. Á þessu16 ára tímabili hefur þessi byggðarkjarni í Snæfellsbæ fjórfaldað kvóta sinn frá 4.700 upp í 17.000 þorskígildistonn.

Í samanburði við stærstu útgerðarstaði landsins kemur fram að Snæfellsnes stendur sig vel. Á síðasta kvótaári voru Vestmannaeyjar með 12,7 eða 62.900 tonn, Grindavík var með 8,3% eða 41.200 tonn, Reykjavík 9% eða 42.000 tonn og Akureyri var með 10,6% eða 52.500 tonn, segir á vef Snæfellsbæjar.