laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvóti norsk-íslenskrar síldar skertur um þriðjung

21. október 2010 kl. 11:44

Á fundi strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem lauk í Lundúnum í dag, náðist samkomulag um að heildarafli verði 988.000 tonn árið 2011 sem er 33% skerðing frá yfirstandandi ár.  Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilt að veiða 143.000 tonn á árinu í stað 215.000 tonna í ár.

Þessi 72.000 tonna samdráttur veldur því að útflutningsverðmæti Íslendinga vegna síldarinnar dregst saman um 6,5 milljarða króna eins og haft var eftir framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Fiskifréttum nýlega.

Niðurstaða strandríkjanna er í fullu samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og þá langtíma stjórnunaráætlun sem sett hefur verið. Staða stofnsins er sögð góð og stofninn hefur verið nýttur á sjálfbæran hátt undanfarin ár. Árgangar undanfarinna fimm ára hafa þó verið minni en á tímabilinu 1998 til 2004 þegar sterkir árgangar komu inn í stofninn. Því eru aflaheimildirnar skertar nú.

Fyrr í vikunni var einnig skrifað undir samning um stjórnun veiða úr kolmunnastofninum og er heildaraflamark 44.100 tonn fyrir árið 2011 sem er aðeins 10% af afla yfirstandandi árs. Þetta þýðir að íslenski kolmunnakvótinn minnkar úr 88.000 tonnum í 6.500 tonn. Skerðing útflutningstekna af þessum sökum nemur 3,5 milljörðum króna.