laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvóti tryggður í heimabyggð

Guðjón Guðmundsson
26. mars 2019 kl. 07:00

Eggert Halldórsson, framkvæmdastjóri Þórsness. MYND/GUGU

Þórsnes kaupir útgerð Arnars SH.

Þórsnes SH 109 sem gert er út af samnefndu fyrirtæki á Stykkishólmi hefur verið við grálúðuveiðar í net út af Kolbeinsey að undanförnu líkt tvö undanfarin ár. Skipið er smíðað 1996 í Noregi en kom til Stykkishólms 2017 og leysti af hólmi eldra Þórsnesið. Þórsnes, sem rekur afkastamikla saltfiskverkun, keypti nýlega útgerð netabátsins Arnars SH sem hefur verið að veiða grimmt á þessari vertíð.

Fyrstu tvo mánuði ársins fiskaði Arnar SH um 250 tonn. Hann hafði lagt upp í Stykkishólmi og segir Eggert Halldórsson, framkvæmdastjóri Þórsness, að með kaupunum séu heimamenn að verja kvótann og halda honum í heimabyggð.

Kaupunum á útgerð Arnars SH fylgdu um 340 þorskígildistonna kvóti. Eggert segir veiðarnar ganga mjög vel eins og undanfarin ár. Menn fari bara út og sæki fiskinn á þessum árstíma. Meðalvigtin hefur verið í kringum 8 kíló slægt.

Fyrirtækið gerir einnig út Bíldsey SH með sex manna áhöfn. Hráefnið er allt  unnið í  salt og mest af því fer til Portúgal. 27 manns starfa við saltfiskvinnsluna. Á Bíldsey er fjögurra manna áhöfn og tvær 16 manna áhafnir á Þórsnesinu. Á Arnari SH, sem er ennþá rekinn í aðskildu félagi í eigu Þórsness, eru fjórir í áhöfn. Samtals starfa því yfir 70 manns hjá fyrirtækinu.

Vinnslan um borð skilar verðmætunum

Úthaldið á Þórsnesinu er um 20 dagar. Í fyrra voru veidd um 1.000 tonn og gerir Eggert ráð fyrir því að svipað magn verði veitt núna. Þórsnes hefur skipt á tegundum fyrir grálúðu og gert líka út út á leigukvóta.   Grálúðan er haus- og sporðskorin og fryst um borð. Grálúðan hefur verið seld á markað í Asíu og ágæt verðmæti hafa fengist fyrir afurðirnar.

Grálúðuveiðin fer vel saman með bolfiskinum og segir Eggert næg verkefni. Auk þess að gera út Arnar og Bíldsey er fyrirtækið með báta í viðskiptum og kaupir á markaði. Í fyrra var unnið úr um 5 þúsund tonnum og rúmlega helmingurinn af þeim fisk kom af markaði eða öðrum bátum.

Eggert segir að þótt reksturinn gangi ágætlega núna þurfi menn alltaf að vera tánum.

Veiðigjöldin fjórfölduðust

„Maður þarf að vera vakandi yfir öllu og passa upp á hverja krónu. Þetta er sveiflukenndur „bissness“ og þótt hráefnisverðið eigi að laga sig að afurðarverðinu og genginu þá gerist það ekki alltaf. En það sem maður óttast hvað mest er þessi samþjöppun sem er að eiga sér stað. Við sjáum það á hverju ári hve bátunum hefur fækkað sem landa á markaði. Þetta er ákveðið áhyggjuefni. Það getur bitnað á sjávarútvegsbyggðunum og auðveldlega leitt til hækkunar á hráefnisverði á mörkuðunum,“ segir Eggert.

Hann segir veiðigjöldin mikla ógn við tilveru lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja. Þannig hafi Þórsnesið greitt 31 milljón í veiðigjöld árið 2017 og ári seinna var það komið upp í 120 milljónir króna. Ríkið vilji sitt og þá leiti útgerðarmenn útgönguleiða.

„Þetta er allt of mikið og tekur verulega á. Bátar sem eru ekki með vinnslu eiga enga möguleika í þessu kerfi. Það verður engin uppbygging inni í svona félögum og þessir bátar enda allir inni í félögum sem eru með vinnslu. Þannig sé ég þetta fyrir mér. Formið verður þá bara útgerð með vinnslu því það er eina leiðin til þess að geta reitt veiðigjöldin af hendi,“ segir Eggert.