laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvóti við Ísland kæmi aldrei greina

Guðsteinn Bjarnason
13. febrúar 2020 kl. 13:00

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í London. MYND/HAG

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í London, segir íslensk stjórnvöld vel undirbúin fyrir viðræðurnar við Breta. Enn sé stefnt að algerri fríverslun með sjávarafurðir en nauðsynlegt sé að nota vel tímann fram að áramótum.

Nú þegar Bretar eru gengnir úr Evrópusambandinu þurfa Íslendingar að ná samningum um framtíðarfyrirkomulag viðskipta milli landanna. Íslensk stjórnvöld hafa verið að búa sig undir þær samningaviðræður árum saman, eins og lesa mátti um í viðtali við Stefán Hauk Jóhannesson og Sigurgeir Þorgeirsson sem birtist í Fiskifréttum í október 2017.

Þar kom fram að helsta samningsmarkmið Íslendinga gagnvart Bretum verði „algjör fríverslun með sjávarafurðir“ eða „til vara að okkur bjóðist ekki lakari kjör heldur en okkur bjóðast í dag.“

Stefán Haukur, sem nú er sendiherra Íslands í London, segir afstöðu Íslands óbreytta hvað þetta varðar.

„Í upphafi er vert að nefna að við höfum unnið okkar heimavinnu vel fyrir viðræðurnar við Breta, en það hefur verið forgangsmál Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra. Samninganefnd hefur verið komið á fót undir forystu Þóris Ibsen, sendiherra sem verður aðalsamningamaður Íslands gagnvart Bretum. Svo vill einnig til að Ingólfur Friðriksson, staðgengill minn hér í sendiráðinu mun leiða viðræðurnar um vöruviðskipti við Breta af Íslands hálfu. Bretar eru óðar að ljúka sínum undirbúningi og við vonumst til að geta hafið viðræður fljótlega,“ segir Stefán Haukur.

Silikondalur fiskvinnslunnar

„Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að Íslendingar eru einhverjir stærstu birgjar Breta í sjávarafurðum. A.m.k. 75% fisksins sem er seldur á markaðnum í Grimsby kemur frá Íslandi. Grimsby og Humbersvæðið líta á sig sem „Silikondal“ fiskvinnslunnar í Bretlandi og jafnvel Evrópu en 70% af sjávarafurðum sem neytt er í Bretlandi eru unnar eða koma í gegnum Grimsby. Þar skiptir ekki síst máli að það er 40 milljón manna markaður í innan við 4 klst akstur frá svæðinu. Þannig eru 5.500 störf í fiskvinnslugeiranum í Grimsby og 10.000 störf til viðbótar ofar í virðiskeðjunni.

Milli 40-50 fyrirtæki í Grimsby vinna með og eru háð því að hafa stöðugan og traustan aðgang að íslenskum sjávarafurðum en sérstaða Íslands er að geta skaffað fisk allt árið. Í þessu sambandi og í ljósi sögunnar er það merkileg staðreynd að í fyrsta skipti í sögunni var engum fiskisporði landað í Grimsby í fyrra. M.ö.o. staða Grimsby sem útgerðarbæjar heyrir sögunni til en bærinn og Humbersvæðið er hins vegar orðin mikilvægasta fiskvinnslumiðstöð Breta sem er algerlega háð innflutningi á sjávarafurðum annarsstaðar frá og ekki síst Íslandi.

Heilbrigðisreglur og eftirlit við innflutning er einnig mikilvægur hluti af myndinni, ekki síst þegar um er að ræða útflutningi á ferskvöru eins og fiski. Í gegnum EES-samninginn hafa okkar vörur ekki þurft að sæta heilbrigðiseftirliti við komu til Bretlands. Á þessu sviði hafa Bretar hins vegar beint til fyrirtækja að vörur geti þurft að sæta auknu landamæraeftirliti við innflutning til Bretlands en of snemmt er að segja að hve miklu marki verður hægt að draga úr því með samningum. Þá er erfitt fyrir fyrirtækin að laga sig að nýrri stöðu ef þau vita ekki fyrr en seint á árinu hver hún verður.

Nýjar hömlur eða takmarkanir á viðskiptum við Breta í tengslum við útgönguna úr EES myndi því einfaldlega skaða þeirra eigin hagsmuni, þeirra eigin fyrirtæki. Ekki síst á svæðum eins og Humberside þar sem núverandi stjórn tókst að ná ótrúlegum árangri á kostnað Verkamannaflokksins sem tryggði sögulegan kosningasigur Íhaldsflokksins.“

Mikilvægar vísbendingar

Hafa Bretar lagt fram einhver áþreifanleg samningsmarkmið varðandi sjávarútveg?

„Samningaviðræður eru ekki hafnar. En við vitum að í nýrri fríverslunarsamningum ESB hefur verið samið um fulla fríverslun með sjávarafurðir, t.d. við Kanada. Bretar leggja þá áherslu á fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir í viðræðum um framtíðarsamband sitt við ESB. Í bráðabirgðatollskrá sem Bretar settu sér þegar stefndi í útgöngu úr ESB án samnings höfðu þeir einnig gert ráð fyrir einhliða niðurfellingu tolla á svo að segja öllum íslenskum sjávarafurðum. Nú stendur yfir samráð um framtíðartollskrá Breta utan samninga og þar er meðal annars horft til þess að fella niður lága tolla og að haga tollskránni þannig að breskum iðnaði sé tryggt hráefni til vinnslu á hagstæðum kjörum. Þetta eru allt mikilvægar vísbendingar.“

Hafa verið dregnar upp ólíkar sviðsmyndir, frá því sem best yrði til þess sem lakast yrði fyrir Ísland?

„Við höfum unnið út frá mismunandi sviðsmyndum frá upphafi og reyndar náðum við samningum við Breta um kjarnahagsmuni okkar sem hefðu tryggt áframhaldandi óbreytt viðskipti með vörur og þar með sjávarafurðir ef þeir hefðu gengið út úr ESB og EES án samninga. Þar sem samningar um viðskilnaðinn náðust þó á endanum og Bretar gengu út í lok janúar á grundvelli útgöngusamnings þá tók við aðlögunartími sem þýðir að EES samningurinn gildir áfram út árið. Þennan tíma þurfum við sem sagt að nota vel til að semja um framtíðarsambandið við Breta.“

Samningsleysi ólíklegt

Gætirðu gert grein fyrir þessum sviðsmyndum í stórum dráttum?

„Sviðsmyndirnar eru allt frá því að það yrði sem mest óbreytt ástand varðandi fiskútflutning, en á betri tollkjörum, yfir í bætt tollkjör en meira eftirlit á landamærum. Þá er ekki hægt að útiloka að aðlögunartímabilinu ljúki án þess að nýir samningar liggi fyrir, og viðskipti ættu sér stað á fullum tollum með landamæraeftirliti. Síðasta sviðsmyndin er þó ákaflega ólíkleg. Bretlandsmarkaður er okkar mikilvægasti markaður fyrir vörur og ekki síst sjávarafurðir eins og þorsk og ýsu. Það gefur auga leið að allar takmarkanir á aðgangi fyrir íslenskar sjávarafurðir á þennan veigamikla markað munu skaða okkar hagsmuni en ekki síður breska hagsmuni vegna þeirra innflutningshagsmuna.“

Hafa Bretar viðrað einhverjar hugmyndir um að þeir muni vilja aðgang að veiðum í íslenskri lögsögu? Kæmu slíkar kröfur fram, er slíkt til umræðu frá hendi íslenskra stjórnvalda? Er mögulegt, innan þess regluverks sem nú er í gildi hér á landi, að verða við slíkum kröfum?

„Stutta svarið við spurningunni er nei. Það kemur auðvitað ekki til greina. Og reyndar er það svo að Bretar eru sjálfir að kljást við ESB og hafna hugmyndum frá þeim um veiðiheimildir í breskri lögsögu gegn aðgangi að innri markaði ESB fyrir þeirra sjávarafurðir. Það myndi því skjóta ansi skökku við ef þeir ætluðu svo að gera sömu kröfur á okkur og þeir eru að hafna.“

Veganesti frá Grimsby

Hvernig er hljóðið í breskum hagsmunaaðilum? Þú ert nýkominn frá Grimsby, eru menn þar opnir fyrir nánu samstarfi við Ísland í sjávarútvegsmálum? Sjá menn jafnvel fyrir sér aukin samskipti á einhverjum sviðum?

„Ég átti afar góða fundi í Grimsby með hagsmunaaðilum, þingmönnum svæðisins, sveitastjórnarmönnum, hafnaryfirvöldum og flutningsaðilum, systurstofnun Matís ofl. Þetta nýttist okkur afar vel til að heyra ofan í menn, hvernig þeir sjá hlutina fyrir sér í tengslum við Brexit sem er okkur mikilvægt veganesti í viðræðurnar. Einnig gefur það aukinn þunga í okkar málflutning í samskiptum við bresk stjórnvöld og stjórnmálamenn að geta vísað í þessar samræður okkar við hagsmunaaðila. Vissulega er ákveðinn óróleiki í fólki á Grimsby svæðinu en ég held ég hafi getað fullvissað þessa aðila um að hagsmunir okkar færu saman. Það ríkir almennt afar mikil ánægja með viðskiptatengslin við Ísland og þeir segjast mjög háðir því að þau komist ekki í uppnám. Ég brýndi hagsmunaaðilana á því að vera í sambandi við þingmenn svæðisins og stjórnvöld til að gera þeim grein fyrir þessum hagsmunum.“

Hvað sjá menn fyrir sér varðandi deilistofnana í Norðaustur-Atlantshafi? Þar hafa ekki náðst samningar um veiðar. Er fyrirsjáanlegt að útganga Breta úr ESB flæki þær samningaviðræður enn frekar, eða einfaldi þær jafnvel?

„Við útgöngu Breta verða þeir sjálfstætt strandríki og setjast við borðið sem slíkir í þessum viðræðum. Við eigum ekki von á öðru en að þeir verði líkt þenkjandi og við í þessum viðræðum. Það getur mögulega styrkt okkar stöðu ef eitthvað er í viðræðunum.“