sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbætur skila 15-18% vaxtaraukningu við hverja kynslóð

6. ágúst 2010 kl. 13:01

Kynbætur Stofnfisks hf. á eldisþorski lofa góðu. Talið er að tvöfalda megi vaxtarhraða þorsksins á fjórum eða fimm kynslóðum. Þriðja kynslóð kynbættra þorskseiða er væntanleg í eldi árið 2012.

Þessar upplýsingar koma fram í viðtali í nýjustu Fiskifréttum við Theódór Kristjánsson, verkefnisstjóra þorskkynbóta hjá Stofnfiski  ,,Eiginlegar kynbætur hófust við fyrsta val út úr grunnstofni árið 2006 en þá fengum við fyrstu kynslóð kynbættra seiða sem við köllum F1. Kynslóðabilið hjá þorskinum er um þrjú ár þannig að 2009 fengum við aðra kynslóð kynbættra seiða eða F2. Nú standa vonir til að árið 2012 náum við þriðju kynslóð kynbættra seiða.

Auk þessa höfum við gert tilraunir með að ala saman kynbætt og ókynbætt seiði og það hefur skilað okkur 15 til 18% vaxtaraukningu við hverja kynslóð. Kynbæturnar snúast um að auka vaxtarhraðann og ná fisknum fyrr í sláturstærð sem er yfir þrjú kíló.

Ef við gerum ráð fyrir um 18% vaxtaraukningu á kynslóð þá erum við að tala um 54% vaxtaraukningu á þremur kynslóðum,” segir Theódór.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.