laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynna þorskinn í Kína

29. apríl 2014 kl. 15:53

Fiskflak í snyrtingu

Norska sjávarafurðaráðið telur norskan þorsk eiga framtíðarmöguleika á þessum gríðarstóra markaði.

Norska sjávarafurðaráðið (Norges sjömatråd), sem hefur það hlutverk að efla orðspor og markaðsmöguleika norskra fiskafurða um allan heim og fær til þess gríðarmikla fjármuni, horfir nú til Kína sem nýs markaðar fyrir norskan þorsk. 

Í frétt á vef ráðsins segir að sérfræðingar þess séu nú að greina markaðinn og sé ætlunin að reyna fyrir sér með bæði ferskan og frystan þorsk. Ljúka á undirbúningsvinnunni fyrir sjávarútvegssýninguna China Fisheries & Seafood Expo í nóvember. 

Fram kemur að Kínverjar hafa litla þekkingu á tegundinni þorskur. Þeir brúka orðið „xueyú“ fyrir þorsk en bókstafleg þýðing á því er „hvítur eins og snjófiskur“. Þetta hugtak er notað yfir allar tegundir hvítfisks svo sem tannfisk, seabass, silfurþorsk, svartþorsk, kyrrahafsþorsk, atlantshafsþorsk, ufsa, ýsu og lúðu. 

Á vef norska sjávarafurðaráðsins er bent á að innflutningur til Kína á fiskmeti  hafi aukist mjög á síðustu fimm árum. Ástæðan sé sú að kaupmáttur hafi aukist samfara vaxandi millistétt og aukinni alþjóðavæðingu samfélagsins. Einnig hafi Kínverjar vaxandi áhyggjur af eigin matvælaöryggi. Þar af leiðandi sé nú lag til að markaðssetja þorsk þar eystra.