föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynt upp í nemendunum

Guðsteinn Bjarnason
18. september 2017 kl. 16:00

Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna hefur starfað hér á landi í tuttugu ár. Hundruð nemenda úr öllum heimshornum segja dvölina á Íslandi hafa skipt sköpum í lífi sínu.

„Við breytum því hvaða sýn þeir hafa, nemarnir okkar,“ segir Tumi Tómasson, skólastjóri Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. „Þetta er held ég það sem er mikilvægast við námið. Við breytum trú þeirra á sína eigin getu til að framkvæma og breyta hlutum, kyndum aðeins upp í þeim.“

Alls hafa um 350 nemendur lokið námi frá Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er eini skólinn sinnar tegundar í heiminum. Tuttugasta starfsár hans er að hefjast þessa dagana. Nýr nemendahópur kom um síðustu helgi og í tilefni tvítugsafmælisins komu einnig hingað til lands 22 fyrrverandi nemendur sem, ásamt nýja nemendahópnum og öðrum fyrrverandi nemendum sem eru í framhaldsnámi hér, tóku virkan þátt í alþjóðlegu sjávarútvegsráðstefnunni, World Seafood Congress 2017, sem haldin var í Hörpu nú í vikunni.

Þáttur í þróunaraðstoð
Starfsemi skólans er þáttur í þróunaraðstoð Íslendinga.

„Í rauninni er okkar markmið að aðstoða samstarfsaðila við að ná sínum þróunarmarkmiðum í sjávarútvegi, og jafnvel að hafa áhrif á hver þau eru,“ segir Tumi. Nemendur eru sérstaklega valdir inn í skólann í samstarfi við stjórnvöld og stofnanir í heimalandinu.

„Það er þannig að við förum og ræðum við yfirvöld og þau tilnefna stofnun eða deild eða aðila sem eru mikilvægir við gera áætlanir um framþróun og við að hrinda þessum þróunaráætlunum í framkvæmd. Við förum svo þangað og hittum þar forstöðumenn þessara eininga sem síðan tilnefna fólk til okkar. Svo metum við það hvort það standist þær grunnkröfur sem eru gerðar af Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og reynum líka að átta okkur á hvort við getum boðið upp á viðeigandi nám sem nýtist þeim í starfi.“

Hann segir skólann sækjast sérstaklega eftir því að fá til sín fagfólk í yngri kantinum, fólk sem er búið að mennta sig og hefur starfsreynslu, veit nokkurn veginn hvað það vill gera og hvar skóinn kreppir. Meðalaldurinn er í kringum 35 ár.

„Þetta hefur samt breyst rosalega mikið. Þegar við byrjuðum fyrir tuttugu árum vorum við mjög upptekin af því að kynna fólk fyrir nýrri tækni eða aðferðum. Það var meiri kennsla þá í grunnþáttum eins og eftirliti með gæðum. Þetta voru mikið lönd þar sem útflutningur á fiski var mikilvægur og yfirleitt var þetta fólk með BS gráðu, mikið tæknifólk , en núna er fólk oftar en ekki með meiri formlega menntun þegar það kemur, búið með framhaldsnám og jafnvel doktorsgráðu.“

Á hverju ári kemur nýr hópur nemenda til sex mánaða dvalar hér á landi. Þeir koma úr afar ólíkum áttum en eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á að starfa í tengslum við sjávarútveginn hver í sínu heimalandi. Þeir koma í september og eru hér yfir kaldasta og dimmasta tíma ársins sem er auðvitað ekki það allra besta, en þetta er sá tími sem fellur best að taktinum í íslenskum sjávarútvegi og þeim stofnunum sem sinna honum.

Flestir nemarnir hafa komið frá Víetnam, eða 26, og tuttugu eða fleiri hafa komið frá Úganda, Kína, Kenía, Sri Lanka og Tansaníu. Hingað hafa komið nemendur frá Nárú og Vanúatú, Súrínam og Sankti Lúsíu, svo fátt eitt sé talið. Og sex hafa komið frá Norður-Kóreu.

Heimurinn hefur breyst
Starfsfólk skólans hefur undanfarna tvo áratugi haft einstakt tækifæri til að fylgjast með breytingum sem orðið hafa á nemendahópum þennan tíma. Sú þróun endurspeglar þær miklu breytingar sem orðið hafa í heiminum, með batnandi efnahag víðast hvar, aukinni tækni og æ víðtækari samskiptum.

„Þegar við erum að byrja þá eru þessi lönd, sérstaklega í Afríku, að þjást af þessum áætlunum um efnahagsaðlögun sem Alþjóðabankinn var með. Það þýddi að þá voru engar nýráðningar. Margir voru því of gamlir fyrir okkar nám og stundum erfitt að finna kandídata. Og þá var háskólamenntun heldur ekki orðin svona almenn eins og nú er. Menn voru ekki komnir með internetið og fólk hafði eins gott aðgengi að upplýsingum. Fólk gat ekki gúgglað Ísland og var ekki alltaf visst um hvað biði þeirra.“

Hann segir að nemendur hafi áður fyrr iðulega lagt töluvert á sig til að koma með matvæli hingað til lands, til dæmis kassava-mjöl sem víða er mikilvæg fæða.

„Núna eru þetta miklu meiri heimsborgarar, betur menntaðir og umfram allt betur upplýstir. Og þau eru meira að vinna hér að verkefnum og rannsóknum við að meta áhrif stefnu stjórnvalda eða gera úttektir á því hvernig verkefni hafa tekist, eða eitthvað slíkt. Þannig að þetta er komið á hærra stig.“

Hér á landi eru þrír aðrir skólar reknir á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Tumi segir að þessa dagana sé verið að ljúka úttekt á þessum fjórum skólum og allir hafi þeir komið vel út.

„Við erum sérstaklega ánægð með þennan árangur. Eðlilega er fullt af hlutum sem við getum bætt, en ef við ættum að segja í einni setningu hvaða áhrif þetta hefur haft á nemana sem koma hingað til Íslands í sex mánaða náms, þá skilgreina þeir sinn starfsferil sem fyrir og eftir Ísland. Þetta verða hreinlega vatnaskil í þeirra þróun sem fagfólk. Og þetta vissum við, en við vissum ekki að það væri svona afgerandi.“

Ekkert sældarlíf
Tumi segir þessa afstöðu fyrrverandi nema til skólans óneitanlega hlýja sér og samstarfsfólki sínu í skólanum um hjartaræturnar.

„Við erum alveg ofboðslega kát með þetta. Þetta er líka svo skemmtileg vinna. Maður getur alltaf verið góði gæinn, jafnvel þótt við skömmum þau mikið meðan þau eru hérna. Þau eru hérna bara í sex mánuði. Það eru engin próf en nóg af verkefnum.“

Hann segir jafnt nemendur sem kennara við skólann leggja mikið á sig til þess að sem mest komi út úr náminu.

„Þetta er ekkert sældarlíf hjá þeim hér á Íslandi um hávetur. Við erum að píska þau áfram og við erum ekkert að gera rosalega vel við þau peningalega. Þau svelta svo sem ekkert en þau eru heldur ekkert að kaupa sér merkjavörur eða fara á skrall. Þau eru bara að vinna. Þetta er bara fólk sem veit hvað það vill og áttar sig á hvað það getur viljað, að það geti sett sér ný markmið. Við erum ekkert að taka við neinum nýstúdentum. Við viljum fá fólk með reynslu.“

Tugir hafa komið aftur
Frá árinu 2004 hefur Sjávarútvegsskólinn hér á landi veitt hátt í þrjátíu fyrrverandi nemendum styrki til framhaldsnáms við háskóla hér á landi. Tíu þeirra hafa lokið doktorsnámi, tíu hafa lokið meistaranámi og Tumi telur að sjö séu í námi hér núna, þrír í doktorsnámi og fjórir í meistaranámi.

„Við leggjum mikið upp úr því, bæði í meistara- og doktorsnáminu, að nemendurnir séu hluti af rannsóknarumhverfinu heima fyrir. Hluti af verkefninu er alltaf unninn þar og stundum eru leiðbeinendur þaðan líka. Þannig að þetta er ekki alveg hefðbundið nám sem er bara stundað hér heldur er þetta allt unnið í nánu samstarfi.“

Hann nefnir sem dæmi konu sem nú er á öðru ári í doktorsnámi og er að rannsaka fiskeldi. Hún er enn að vinna að úttekt og undirbúningi tilrauna, sem síðan verða gerðar hér á landi á Hólum í Skagafirði.

„Hún er að rannsaka hvað gerist þegar framleiðslan eykst í eldinu,“ segir Tumi. Skoða áhrifin af því þegar fleiri fiskar eru settir í tjörn, með meiri fóðrun og reynt er að flýta vextinum. Þá skapast umhverfi í tjörnunum sem menn þekkja kannski ekki. Hún er að skoða umhverfisbreyturnar, sýrustig og koltvísýring og annað slíkt, hvernig þessir þættir breytast og hvaða áhrif það hefur á vöxt og dánartölu.“

Ekki gera ekki neitt
Tumi segir nemendahópinn hverju sinni starfa náið saman.

„Þeir læra mikið hver af öðrum. Þetta er alltaf mjög þéttur hópur, og svo kynnast þeir mjög vel leiðbeinendum sínum og kennurum hérna inni á Hafró, inni á Matís, í háskólanum á Hólum, sem er í eldi, og svo eru bæði Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands með í þessu. Þau kynnast svo vel öllu kerfinu hérna, og iðnaðinum. Fyrstu vikurnar fara í að skoða hvað er sjávarútvegur, skoða hver gerir hvað, hver safnar hvaða gögnum og hver notar þau og hvernig þessu er stjórnað. Þau sjá allt í einu mikilvægi þess að koma böndum yfir veiðina, hafa stjórn á henni, og hvað það getur leitt af sér mikla hagsæld. Við erum að reyna að sýna þeim hér hvaða áhrif stjórnun hefur,“ segir Tumi.

„Við erum að reyna að breyta því hvernig nemar okkar hugsa, ekki endilega að gera eins og við, en aldrei gera ekki neitt. Hér á Íslandi eru til dæmis skiptar skoðanir um fiskveiðistjórnunarkerfið og það er bæði gott og eðlilegt, en geturðu ímyndað þér hvernig það væri ef við hefðum ekkert stjórnkerfi, hvar sjávarútvegurinn væri þá staddur?“

Nýjar hugmyndir og ný þekking
Samskiptin við nemendur víðs vegar að hafa ekki síður reynst lærdómsrík fyrir Íslendingana sem kynnast þeim í náminu, bæði kennara og aðra. Með nemendunum komi nýjar hugmyndir og ný þekking og upp úr þessu spretti ýmis tækifæri.

„Hér eru leiðbeinendur að fást við alls kyns verkefni sem þeir hafa ekki áttað sig á áður. Hér var til dæmis kona í fyrra sem er komin í meistaranám núna. Hún kom með hausa af túnfisk með sér frá Súrínam og það kemur í ljós að þetta er tíu prósent hágæðaolía, sama olían og þú tekur á hverjum morgni til að detta ekki niður dauður úr hjartaslagi. Og þessu var bara hent. Í hennar fyrirtæki var hent þúsund tonnum á ári.“

Þetta þótti spennandi og hún fór að skoða þetta betur. Fleiri verkefni urðu síðan til upp úr þessu.

„Nemendur eru núna farnir að skoða þorskhausana frá Nígeríu. Sjóntaugin og heilinn og þetta allt er bara fita. Þetta er feitasti hlutinn. Nígeríumenn hafa svo sem alltaf vitað að þetta er góður matur en núna er sem sagt verið að skoða hvort ekki sé kannski betra að taka bara gellurnar og kinnarnar og olíuna úr hausnum, frekar en að vera að þurrka þetta. Og gera svo bara beinamjöl úr restinni.“

Ekkert slor
„Það er líka svo skrýtið hvað margir Íslendingar halda að fiskur sé bara slor og viðbjóður, en hér á Íslandi er þetta þekkingariðnaður í fremstu röð. Það er ekkert síður flott að skoða fiskvinnslufyrirtæki hér en Íslenska erfðagreiningu. Þetta er öflugur iðnaður sem hefur fjárfest mikið í rannsóknum og þróun. Á hverju ári sjáum við nýja tækni og nýtt hugvit í sjávarútvegi. Þess vegna er íslenskur sjávarútvegur einstakur“ segir Tumi.

Tumi segir Sjávarútvegsskólann eiga íslenskum sjávarútvegi mikið að þakka. Bæði opinberar stofnanir og fyrirtæki í iðnaðinum hafi jafnan tekið vel í erindi frá skólanum

„Við finnum fyrir miklum stuðningi allstaðar að. Umræðan um sjávarútveginn getur stundum verið neikvæð og menn eru kátir með að einhver kunni að meta þetta og taka okkur alltaf jafn vel. Og við erum þeim óendanlega þakklát því ef það væri ekki fyrir þessa afstöðu þeirra þá hefðum við ekki upp á neitt að bjóða. Þá gætu þessir nemendur farið hvert sem er og myndu sennilega ekki kjósa að dvelja hér í sex mánuði í skammdeginu. En það getur enginn boðið upp á svona nám eins og við erum með hér, og það er ekki okkur að þakka. Það er sjávarútvegnum hér að þakka,“ segir Tumi.

„Það er þessi iðnaður sem gerir okkur kleift að vera með svona flott nám hérna fyrir svona flottan hóp af nemendum.“