föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lægsta stofnvísitala humars frá 1987

4. júní 2015 kl. 08:00

Humarhol á dekki í humarleiðangri.

Aldrei mælst eins lítið af smáum humri.

Ekki horfir vel humarstofninn við landið. Stofnvísitala í maí hefur árum saman farið lækkandi og nýliðun er slök þannig að innan fárra ára munu veikir árgangar þurfa að bera uppi veiðina. Þetta kemur fram í frétt Hafrannsóknastofnunar, en árlegum humarleiðangri stofnunarinnar að vorlagi er nýlokið. 

Í frétt stofnunarinnar segir m.a.: 

Stofnvísitala humars í maí hefur farið lækkandi frá árinu 2008 og mældist nú sú lægsta frá árinu 1987 þegar núverandi stöðvaskipan komst á. Vísitalan hefur yfirleitt endurspeglað afla á sóknareiningu nokkuð vel, en hefur þó verið lægri en afli á sóknareiningu síðan 2011. Að stóru leyti má skýra lága vísitölu með litlum veiðanleika á flestum svæðum í stofnmælingu. Í stofnmælingu með trolli er veiðanleiki humars mjög breytilegur milli ára vegna breytilegra birtuskilyrða (sökum þörungagróðurs) og magns fisks á veiðislóð sem var mikið í ár. Þegar sjórinn er tær og birtan mikil heldur humarinn sig í holum og er þá illveiðanlegur. Í ár var yfirborðshiti sjávar nærri 2 gráðum lægri en mörg undanfarin ár og sjórinn tær enda lítill gróður. 

Samkvæmt stofnmælingu í maí 2015 var 53–58 mm skjaldarlengd (11–13 ára humar) mest áberandi miðað við fjölda. Hlutfall 14 ára og eldri humars (60 mm og stærri) var mjög hátt, en aldrei hefur mælst eins lítið af humri undir 40 mm. Innan fárra ára munu þessir veiku árgangar þurfa að bera veiðarnar uppi. Líkt og þrjú síðustu ár var það einkum norðan við Eldey og í Skerjadjúpi sem vart varð við vott af nýliðun.

Sjá fréttina í heild og skýringarmyndir á vef Hafrannsóknastofnunar.