mánudagur, 30. mars 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lágmarksverð á síld og makríl í Noregi

12. september 2011 kl. 10:02

Makríll (Mynd: Kristján Kristinsson)

86 krónur íslenskar á kílóið fyrir 350 gramma síld og 140 krónur á kílóið fyrir 375 gramma makríl

Samkomulag hefur náðst um lágmarksverð á norsk-íslenskri síld og á makríl upp úr sjó milli seljenda og kaupenda í Noregi, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag.

Norsk-íslensku síldinni er skipt í fjóra stærðar- og verðflokka. Síld sem er 350 grömm og yfir selst á 4 NOK kílóið að lágmarki eða sem samsvarar 86 íslenskum krónum Fyrir síld sem er milli 300 og 349 grömm eru greiddar 3,50 NOK. Síld sem er 200-299 grömm gefur 2,75 NOK og loks fá menn 2,4 NOK (51 ISK) fyrir síld sem er 199 grömm eða minni. Lágmarksverð fyrir síld sem er undir 125 grömmum og flokkast frá við manneldisvinnslu er 0,9 NOK (19 ISK). Ef síld sem er 125 grömm eða minni er hins vegar nýtt í manneldisvinnslu fást 2,4 NOK fyrir hana.

Verðmyndun á makríl er heldur flóknari. Honum er skipt í 12 þyngdar- og verðflokka. Fyrir makríl sem er 550 grömm eða þyngri eru greiddar 9 NOK á kílóið að lágmarki eða 193 ISK. Verðflokkarnir hlaupa síðan á 25 gramma bili. Fyrir makríl sem er á bilinu 375 til 399 grömm fást 6,5 NOK á kílóið, tæpar 140 ISK. Lægsta verðið er svo greitt fyrir makríl sem er 250 grömm eða minni, 3,5 NOK á kílóið eða 75 krónur íslenskar.