sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lagt til að ýsuveiði í Barentshafi aukist um tæp 50 þúsund tonn

5. júní 2009 kl. 15:00

Á sama tíma og verið er leggja til verulegan samdrátt í ýsuveiðum hér við land á næsta fiskveiðiári berast fréttir frá Noregi um að auka mætti ýsukvótann í Barentshafi um 49 þúsund tonn, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren í dag.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) lagði til í fyrra að veidd yrðu 194 þúsund tonn af ýsu í Barentshafi árið 2009 og var farið eftir þeirri ráðgjöf. Nú liggja fyrir tillögur ICES fyrir árið 2010 og þar kemur fram að ráðlögð ýsuveiði er 243 þúsund tonn. Til samanburðar má geta þess að Hafrannsóknastofnunin lagði til að veidd yrðu 83 þúsund tonn af ýsu á Íslandsmiðum á yfirstandandi fiskveiðiári en sjávarútvegsráðherra gaf út 93 þúsund tonna ýsukvóta. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir næsta fiskveiðiár varðandi ýsu hljóðar upp á 57 þúsund tonn eins og fram er komið, sem er 26 þúsund tonna samdráttur frá ráðgjöfinni í fyrra.

Fram kemur í áliti ICES að ýsustofninn í Barentshafi sé í mjög góðu ástandi. Nýliðunin er góð og veiðiþolið mikið. Nýliðun þriggja ára ýsu hefur verið við eða yfir meðaltali frá árinu 2000. Einkum eru 2004-2006 árgangarnir taldir sterkir. Þó benda gögn til þess að 2007 og 2008 árgangarnir verði undir meðaltali. ICES telur að stjórn ýsuveiðanna, sem norsk-rússneska fiskveiðinefndin ákvað 2007, fylgi varúðarsjónarmiðum þrátt fyrir óvissu sem ríkir um óskráðan afla. Norska hafrannsóknastofnunin er sammála mati ICES en bendir samt á að óvissa varðandi ólöglegan afla kunni að leiða til ofmats á stofninum.