fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landtenging skipa yrði mikilvægasta framlagið

Svavar Hávarðsson
10. júní 2019 kl. 10:00

Verið er að vinna að hagkvæmniathugun á landtengingum í Sundahöfn. Mynd/HAG

Faxaflóahafnir fóru langt með að kolefnisjafna rekstur sinn á síðasta ári.

Stærsta mögulega framlag Faxaflóahafna til loftlagsmála er talið liggja í styrkingu landtenginga skipa viðskiptavina hafnanna. Skref í þá átt eru í undirbúningi. Faxaflóahafnir fóru nærri því að kolefnisjafna rekstur síðasta árs.

Á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna var fjallað um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni. Byggði sú umfjöllun á skýrslu um grænt bókhald Faxaflóahafna fyrir árið 2018 en það ár var í fyrsta skipti birt losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt hinni alþjóðlega viðurkenndu aðferðafræði GHG Protocol. Gengu Faxaflóahafnir lengra en fyrri ár við að greina losun beinna og óbeinna gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni.

Þurftarfrekir dráttarbátar

Heildarlosun Faxaflóahafna var 889,3 tonn CO2-ígilda á síðasta ári og þar af 818,7 tonn vegna notkunar eldsneytis eða 92%. Bruni eldsneytis er því þungamiðja losunar gróðurhúsaloftegunda hjá Faxaflóahöfnum. Dráttarbátar Faxaflóahafna nota í dag tæp 84% þess eldsneytis sem notað er. Á árinu var unnið í að koma upp eldsneytiseyðslumælum í stjórnrýmum dráttarbátanna, en mælarnir upplýsa skipstjóra um eyðsluna á hverjum tíma og hversu mikið eldsneyti er notað í hverri ferð. Vonir eru bundnar við að notkun mælanna muni hjálpa við að draga úr eldsneytisnotkun þeirra, segir í samantekt Helga Laxdal, forstöðumanns rekstrardeildar, um málið sem lögð var fram á fundinum.

Vandinn er þó sá að öryggissjónarmið knýja hins vegar á um notkun stærri og aflmeiri báta eftir því sem umferð stærri skipa eykst.

„Það virðist því verða okkur erfitt að draga úr heildarlosun frá notkun dráttarbátanna samhliða fjölgun stærri skipa. Nýir orkugjafar fyrir öfluga dráttarbáta virðast ekki enn vera orðnir raunhæfir,“ segir Helgi.

Nálægt kolefnisjöfnun

Binding kolefnis á vegum Faxaflóahafna nam 790,6 tonnum á árinu 2018. Þar af voru 348 tonn bundin með endurheimt Katanestjarnar á Hvalfjarðarströnd og 442,6 tonn bundin í skógi í landi Klafastaða á Grundartanga. Nettó losun Faxaflóahafna, sé litið á losun gróðurhúsalofttegunda í allri virðiskeðjunni nam því 98,7 tonnum, segir í gögnum Helga.

Í september 2017 var undirritaður samstarfsamningur Faxaflóahafna og Skógræktarinnar um skógrækt í landi Faxaflóahafna á Klafastöðum og í framhaldinu í landi Skógræktarinnar á Vesturlandi. Miðað var við að árlega yrði ræktaðu skógur á allt að þremur hekturum lands. Alls var plantað í 1,5 hektara lands 2018 og batt sá skógur alls 11 tonn CO2-ígilda.

„Verði árleg losun ekki aukin mun að óbreyttu þurfa að planta skógi í 14 hektara lands til að jöfnuði verði náð. Tekið skal fram að útreikningar Skógræktarinnar á kolefnisbindingu miðar við áætlaðan vöxt hvers árs þ.a. nýplantaður skógur bindur tiltölulega lítið fyrstu árin enda er núverandi kolefnisbinding að langmestu leyti í eldri skógi á Grundartanga. Lagt er til að flýta þessum áformum og auka árlega útplöntun þ.a. jöfnuði verði náð fyrr en ella,“ segir Helgi í umfjöllun sinni.

Styrking landtenginga skipa

Til viðbótar við þessi skref sem þegar hafa verið tekin segir Helgi að „stærsta mögulega framlag Faxaflóahafna til loftlagsmála hlýtur þó að verða styrking landtenginga skipa viðskiptavina hafnanna.“

Núverandi kerfi miðast við þarfir fiskiskipa og minni farþegabáta. Landtengingar kaupskipa og rannsóknarskipa hljóta að vera næsta verkefni, að hans mati.

„Verið er að vinna að hagkvæmniathugun á landtengingum gámaflutningaskipa í Sundahöfn. Í framhaldi af henni verður unnið að gerð aðgerðaráætlunar um styrkingu landtengingakerfisins,“ skrifar Helgi.