miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Langur listi yfir gallana á Magna

Guðjón Guðmundsson
30. ágúst 2020 kl. 07:00

Magni kom til landsins í lok febrúar en fljótlega var ljóst að mikið var að skipinu. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Damen Shipyard klúðrar smíði nýs dráttarbáts Faxaflóahafna. Það sem gera þarf við fyllir langan lista og sumt einfaldlega vantar í bátinn, eins og loftræstikerfi í brú bátsins. Damen tekur fulla ábyrgð og lengir ábyrgð um helming.

Mikið vantar upp á að smíði og frágangur á Magna, nýjum dráttarbáti Faxaflóahafnar, hafi staðist væntingar kaupenda. Listinn yfir það sem er í ólagi eða vantar í bátinn, sem kostaði Faxaflóahafnir rúman milljarð króna, er langur.

Anna Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafnar, segir að kostnaðurinn lendi allur á Damen Shipyard sem jafnframt muni lengja ábyrgð á bátnum um helming.

Atriði sem bent er á ná til aðalvélar, ljósavélar, spila, brunadælu, vökvaolíukerfis fyrir spil, lensikerfis, loftræstikerfis, azimuth skrúfa, nema sem segir til um hvort báturinn sé að fylla sig af sjó, ankerisspils og annarra atriða sem lúta að öryggi bátsins.

Samið var um smíði bátsins við Damen Shipyards í Hollandi en báturinn var smíðaður í skipasmíðastöð fyrirtækisins í Víetnam. Báturinn kom til Reykjavíkur í lok febrúar.

Fljótlega komu í ljós bilanir og gallar í bátnum og var honum siglt til Hollands í júlí. Svo virðist sem ágallarnir hafi verið viðameiri en í fyrstu var haldið og smíðagæði langt undir því sem kveðið var á um í samningum.

Smíði bátsins var boðin út í fyrra og buðu átta skipasmíðastöðvar í verkið. Tilboði Damen upp á rúmlega einn milljarð króna var tekið.

Engin miðstöð í brú

Faxaflóahafnir hafa tekið saman lista sem Fiskifréttir hafa undir höndum yfir það sem þarf að laga í nýjum Magna. Sá listi er langur en Faxaflóahafnir telja hann þó ekki tæmandi. Úrbætur sem þarf að ráðast í eru umfangsmiklar og eru á ábyrgð og verða kostaðar af skipasmíðastöðinni.

Ráðgert var að endurbótum yrði lokið í lok ágústmánaðar en ljóst er að það dregst verulega að Magni komi til lands. Á meðan hans nýtur ekki við leggur Damen til annan dráttarbát, Phoenix, sem áætlað er að komi til landsins í byrjun september. Hann hefur umtalsvert minni dráttargetu en Magni.

Viðmælendur Fiskifrétta telja að eftirliti við smíði bátsins hafi verið verulega ábótavant. Telja sumir réttast að taka ekki við bátnum og segja að svo veigamiklar úrbætur sem ráðast þurfi í komi ávallt niður á gæðum bátsins.

Það sem m.a. er talið upp í lista Faxaflóahafna eru lagfæringar á eldsneytisinnsprautunarkerfi aðalvélar, uppsetning á fóðringum, hreinsun á ferskvatnstönkum, leki frá útblásturskerfi sem ekki er gert úr ryðfríu stáli, afrétting aðalvélar, óeðlilegur gangur ljósavélar og rafala, skipta þurfi um framvindu, gera við eða setja upp nýja afturvindu, gera við brunadælur sem eru ryðgaðar, leki er frá gírkassa, leki frá azimuth skrúfum, leki frá aðalloftræstikerfi og loftræstikerfi í brú er alls ekki til staðar, svo fátt eitt sé talið.

Lloyds átti að tryggja gæðin

„Heppnin hefur ekki elt okkur í þessum kaupum. Ábyrgðin og kostnaðurinn þessu samfara liggur ekki okkar megin. Þetta kemur reyndar mjög á óvart því Damen er mjög traust skipasmíðastöð sem við höfum átt í viðskiptum við áður. Báturinn er ennþá þeirra vara og Damen ber fulla ábyrgð. Við höfðum eftirlit með verkinu að vissu marki en að auki átti Lloyds flokkunarfélag að tryggja gæðin. Damen hefur að fullu viðurkennt ábyrgð sína á göllunum og munu bæta þar úr,“ segir Kristín Soffía.

Faxaflóahafnir er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga og er Reykjavíkurborg langstærsti eigandinn.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 27. ágúst.