mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Langur túr en tvö þúsund tonnum landað

6. desember 2018 kl. 14:20

Beitir NK með gott kolmunnahol. Mynd/Helgi Freyr Ólason

Beitir NK heim eftir langan túr í færeysku lögsögunni.

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 2.000 tonn af kolmunna sem fengust í færeysku lögsögunni. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða í dag.

Skipstjóri á Beiti í veiðiferðinni var Tómas Kárason og sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til hans.

„Túrinn var ansi langur. Við hófum veiðar 26. nóvember og brælur trufluðu veiðarnar töluvert. Meðal annars lágum við í höfn í Færeyjum í eina 12 tíma. Aflinn var misjafn, stundum var lítið en stundum nokkuð gott. Aflinn fékkst í átta holum og það var lengi dregið. Lengst drógum við í 30 tíma. Besta holið gaf 450 tonn en þau fóru alveg niður í 100 tonn. Framan af var veitt 80-90 mílur norðaustur af Færeyjum en síðan færðum við okkur sunnar en vorum samt alltaf í svipaðri fjarlægð frá eyjunum,“ segir Tómas.

Fiskifréttir ræddu við Tómas á dögunum þegar túrinn var nýhafinn, og má lesa hér.