þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Laxeldisfyrirtækin fái rekstrarleyfi til bráðabirgða

8. október 2018 kl. 14:10

Kristján Þór Júlíusson

Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafði ógilt starfs- og rekstarleyfi tveggja fyrirtækja fyrir 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Það er vilji Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að tvö fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum fái rekstrarleyfi til bráðabirgða. Áður hafði Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilt starfs- og rekstarleyfi tveggja fyrirtækja fyrir 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Fyrirtækin sem í hlut eiga eru Arnarlax og Arctic Sea Farm. Þau höfðu farið fram á að starfa á meðan dómstólar tækju fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar - því erindi hafnaði úrskurðarnefndin á þeirri forsendu að slíka heimild væri nefndinni ekki heimilt að veita.

Ráðherra kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í hádeginu en vildi ekkert um það segja í viðtölum við fjölmiðla eftir fundinn hvað frumvarp hans snérist um. Það kemur hins vegar fram á vef stjórnarráðsins að til fundarins var boðað til að ræða leyfissviptingarnar og frumvarp Kristjáns – sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi (rekstrarleyfi til bráðabirgða), eins og þar segir.

Málið verður næst kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði frá því á facebook síðu sinni á sunnudag að bæjarstjóri Vesturbyggðar og oddviti Tálknafjarðarhrepps komu á fund formanna stjórnarflokkanna daginn áður ásamt sveitarstjórnarmönnum. Tilefnið var að ræða þá stöðu sem upp er komin hjá fiskeldisfyrirtækjunum í þessum sveitarfélögum.

"Við upplýstum þau um að sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra hafa verið með til skoðunar hvaða leiðir eru færar til þess að gæta meðalhófs í þessu máli og öðrum, þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum. Það er von mín að farsæl lausn finnist á þessu máli sem allra fyrst;" skrifaði Katrín en ásamt sjávarútvegsráðherra höfðu Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra tjáð sig á sama vettvangi. Öll voru þau þeirrar skoðunnar að bregðast þyrfti sérstaklega við úrskurði nefndarinnar. 

Úrskurðarnefndin er skipuð af umhverfisráðherra sem tilnefnir formann og varaformann. Aðrir nefndarmenn starfa í nefndinni samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Allir nefndarmenn hennar skulu uppfylla ströng skilyrði, eins og kemur fram á heimasíðu nefndarinnar