fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leggja til aukna rafvæðingu fiskiskipa

25. janúar 2016 kl. 16:02

Sigurlið Hnakkaþons 2016

Verðlaun veitt sigurliði Hnakkaþonsins 2016

Verðlaun voru afhent fyrir bestu lausnina í Hnakkaþoni HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins, í dag. Sigurliðið lagði fram áætlun um hvernig Þorbjörn hf. í Grindavík gæti aukið notkun rafmagns á línubátum og frystitogara félagsins, bæði við veiðar og við bryggju. Einnig lögðu þau til að Þorbjörn hf., yrði fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi til að taka upp ISO14001 umhverfisstaðal, sem felur í sér markmiðasetningu í umhverfismálum og skuldbindingu um sífelldar umbætur.

Sigurliðið í ár skipuðu nemendur í vél- og orkutæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði við HR, þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Þau eru á leið á stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku, í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði við verðlaunaafhendinguna að verkefni Hnakkaþonsins þetta árið hafi verið mjög krefjandi. Þátttakendur þurftu að leggja fram tillögur um breytingar á starfsemi Þorbjarnar hf. sem leiddu til minni losunar koltvísýrings og aukinnar hagkvæmni í rekstri. „Nemendur leystu þetta verkefni með miklum sóma og þær tillögur sem komu fram voru bæði fjölbreyttar og mjög gagnlegar. Dómnefndinni var því vandi á höndum en að lokum varð niðurstaðan engu að síður samhljóða.“ 

Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar segir: „Það er mikilvægt að efla tengsl milli háskóla og atvinnulífs auk þess sem fyrirtækið hefur ávinning af því að fara yfir sín mál á skipulegan hátt. Það var mikill fengur í því að hlýða á spurningar nemenda og tillögur og virkilega gaman að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og virtust ná prýðilegum skilningi á mörgum tæknilegum málum á skömmum tíma.“

Sjá nánar á vef Hnakkaþonsins, HÉR.