þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leggur til miklar skerðingar við Færeyjar

15. júní 2011 kl. 16:45

Ýsustofninn við Færeyjar er í sögulegu lágmarki.

Alþjóðahafrannsóknaráðið ráðleggur 30% niðurskurð þorskaflans og algjört ýsuveiðibann.

Veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hljóðar upp á 30% skerðingu þorskaflans á landgrunni Færeyja á næsta ári og áframhaldandi bann við þorskveiðum á Færeyjabanka.

Tveir þorskstofnar eru við Færeyjar og heldur sá stærri sig á landgrunninu. Sá stofn hefur verið í sögulegu lágmarki síðustu árin en er nú að hjarna við. Færeyska útvarpið hefur eftir Jákup Reinert fiskifræðingi á færeysku Hafrannsóknastofnuninni að veiðiálag á þennan stofn sé samt ennþá alltof mikið og því mæli ICES með 30% skerðingu afla. Það gæti náðst fram með því að fækka sóknardögum og/eða með auknum friðunaraðgerðum.

Reinert segir að ICES staðfesti að ýsustofninn við Færeyjar sé áfram sögulega lítill og því sé mælt með algjöru veiðibanni auk þess sem reynt verði að sjá til þess að meðafli ýsu á öðrum veiðum verði sem minnstur.

Loks er ICES þeirrar skoðunar að sóknarþungi sé alltof mikill í ufsastofninn og leggur til að sóknin verði minnkuð um 38%.

Færeyska hafrannsóknastofnunin mun leggja fram tillögur sínar á næstu dögum.