þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður að leigja eða smíða nýtt skip fyrir Hafró

Svavar Hávarðsson
14. apríl 2018 kl. 12:00

Bjarni Sæmundsson hefur þjónað vel og lengi. Stjórnvöld viðurkenna þörfina á því að endurnýja skipið en engin áætlun liggur þó fyrir um slíkt. Mynd/HAG

Ríkisstjórnin tekur undir að Hafrannsóknastofnun þarf á nýju hafrannsóknaskipi að halda

Kanna þarf á næstu fimm árum leigu á sérhæfðu rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnun erlendis frá eða taka ákvörðun um nýsmíði í stað Bjarna Sæmundssonar, eldra skipi stofnunarinnar.

Þetta kemur fram í nýbirtri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019 – 2023. Því er greinileg hreyfing komin á þetta mikla hagsmunamál Hafrannsóknastofnunar þó ekki liggi fyrir afdráttarlaus áætlun um hvernig staðið verði að því að bæta skipakost hennar.

Þörfin viðurkennd

Í texta þingsályktunarinnar segir að rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar gegni lykilhlutverki við rannsóknir á vistkerfi hafsins, súrnun sjávar, vöktun og stofnmati fiskistofna. Tryggja þurfi eðlilega og stöðuga endurnýjun rannsóknarskipa og setja fram áætlun um hana til lengri tíma. Þar segir jafnframt.

„Vaxandi þörf er fyrir skip til að stunda rannsóknir á uppsjávarstofnum (makríl, síld, kolmunna og loðnu) og útbreiðslu og stofnstærð fiskistofna sem rekja má til breytinga á veðurfari og sjávarstraumum. Þá gegnir framlag til rannsókna og þekking á útbreiðslu fiskistofna lykilhlutverki þegar samið er um skiptingu sameiginlegra fiskistofna. Hafrannsóknastofnun hefur leigt fiskiskip til að sinna stofnmælingu botnfiska að vori og hausti. Sífellt erfiðara er að fá skip í þær rannsóknir þar sem útgerðir landsins hafa mun færri skip í rekstri en áður og skipin eru nánast fullnýtt til atvinnuveiða. Ljóst er að ekki er hægt að reiða sig á leigu fiskiskipa eins og áður og því þurfa að vera tiltæk rannsóknarskip í þessi verkefni,“ segir í texta skjalsins og ítrekað að leiga á skipi, eða nýsmíði verði ekki umflúin.

Áætlaður hönnunar- og byggingartími nýs skips er um þrjú ár og kostnaður við smíði þess um þrír og hálfur milljarður króna.

Þar segir jafnframt að sjálfbær og ábyrg nýting auðlinda sjávar á traustum vísindalegum grunni sé forsenda samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða á alþjóðamörkuðum. „Í því ljósi munu stjórnvöld leggja áherslu á rannsóknir og vöktun á lífríki hafsins til að auka þekkingu á þeim miklu breytingum, sem eiga sér stað innan íslenskra hafsvæða svo að hægt sé að bregðast við auknum alþjóðlegum kröfum um vistkerfisnálgun og lágmörkun áhrifa veiða á lífkerfi hafsins.“

Séu þessi orð sett í samhengi þá má spyrja af hverju afdráttarlausari tíðindi um leigu eða nýsmíði á skipi koma ekki fram í áætlun sem teygir sig rúmlega fimm ár fram í tímann. Fiskifréttir hafa ítrekað á síðustu árum rætt við þá sem gerst þekkja til, innan Hafrannsóknastofnunar og utan, sem hafa ekki aðeins bent á að skipakosturinn dugar ekki til heldur það sem alvarlegra er að ekki hefur fengist fjármagn til að stunda grunnrannsóknir á helstu nytjastofnum okkar.

Eldast hratt

Eldra skip stofnunarinnar – Bjarni Sæmundsson - er orðið 48 ára gamalt og Árni Friðriksson 18 ára og því hálfnað með líftíma sinn, benda stjórnvöld á.

Fiskifréttir fjölluðu ítarlega um málið í fyrra. Í viðtali við forstjóra stofnunarinnar – Sigurð Guðjónsson – kom þá fram að bágt ástand Bjarna væri viðvarandi vandamál fyrir stofnunina. Hann sagði að bregðast þyrfti við því „þegar í stað“. Strax.

Sigurður sagði í viðtali við Fiskifréttir að Bjarni sé vel smíðað skip og þess vegna sé hann ennþá á sjó og við rannsóknir. En skipið sé jafnframt barn síns tíma og farið að láta verulega á sjá.

Óskaskipið

Spurður hversu mikið það takmarkar starfsemi Hafró að hafa ekki nýjasta búnað, nefndi Sigurður sem dæmi að í dag sé kominn mun fullkomnari búnaður til bergmálsmælinga en er í Bjarna í dag, en slíkur búnaður af nýjustu gerð gerir vísindamönnum kleift að mæla stærra svæði í hverjum rannsóknarleiðangri, eða í hverri yfirferð, og svo megi lengi telja.

„Óskaskipið væri svipað stórt eða ívið stærra en Bjarni, sem er hæft til að sinna fjölbreyttum rannsóknum bæði djúpt og grunnt. Það myndi gera allar rannsóknir tryggari, með hagkvæmari rekstri,“ sagði Sigurður.

„Árni á hins vegar eftir að endast lengi enn, enda öflugt og gott skip,“ sagði Sigurður en jafnframt að löndin í kringum okkur séu um þessar mundir að endurnýja sín rannsóknaskip.

„Noregur á mörg rannsóknaskip og er að endurnýja þau mörg. Færeyingar eru líka að smíða nýtt skip.“

Framhaldslíf

Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknarleiðangur í byrjun janúar 1971. Skipið hefur gegnt fjölþættum verkefnum við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum.

Árið 1985 voru gerðar viðamiklar endurbætur á skipinu, meðal annars í tengslum við krana á dekki, lagfæringar á brú, tækjaklefa og bergmálstæki. Árið 2003 var síðan skipt um aðalvélar, grandara- og gilsaspil, og móttaka, borðsalur og rannsóknastofur endurnýjaðar.

„Með þessum síðari endurbótum var gert ráð fyrir að skipið myndi nýtast Hafrannsóknastofnuninni í a.m.k. 10 ár til viðbótar,“ segir á vef Hafró sem undirstrikar á hvaða tímapunkti skipið er.

Við sjónarrönd

Skipaður var starfshópur árið 2013 til að undirbúa byggingu og fjármögnun nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun. Var málið kynnt á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á þeim tíma undir fyrirsögninni „Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar við sjónarrönd.“ Samkvæmt skýrslu sem hópurinn skilaði var þá áætlað að nýtt 40-45 metra langt rannsóknaskip myndi kosta um 2,5 milljarða króna og áætlaður afhendingartími slíks skips væri um 20 mánuðir.