sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leit að nýjum sæbjúgnamiðum hefur skilað góðum afla

Gudsteinn Bjarnason
16. júlí 2018 kl. 07:00

Fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um veiðar á sæbjúgum vekja litla hrifningu veiðimanna. Sveitarfélög hafa einnig gagnrýnt breytingarnar. Tugir starfa gætu verið í húfi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í hyggju að gera breytingu á reglugerð um veiða á sæbjúgum. Sitt sýnist hverjum og þeir sem stundað hafa sæbjúgnaveiðar árum saman hafa gert athugasemdir, ekki síst við þá fyrirætlun stjórnvalda að gefa út sérstök leyfi til tilraunaveiða til viðbótar leyfum á þeim þremur veiðisvæðum sem skilgreind hafa verið

„Við sem erum í þessu höfum varið dágóðum tíma og fjármunum í tilraunaveiðar,“ segir Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness VER hf. í Þorlákshöfn. „Við höfum verið að leita að nýjum svæðum og það er búið að leggja heilmikla vinnu og annað í það í gegnum tíðina. Þannig að ef ráðuneytið er núna að tala um að setja á sérstök tilraunaveiðileyfi, þá fellur það nú ekki alveg að því að það sé ekki búið að reyna að leita.“

Núgildandi reglugerð heimilar níu veiðileyfi á þremur skilgreindum veiðisvæðum. Þau eru í Faxaflóa, í Aðalvík á Vestfjörðum og við Austurland. Stjórnvöld hafa heimilað samtals 1700 tonna veiði á þessum þremur svæðum en veiðin hefur orðið töluvert meiri en það á síðustu árum.

Vilja samvinnu við Hafró
Árið 2017 veiddust 3.200 tonn af sæbjúgum og á þessu ári er veiðin komin upp í 3.400 tonn. Ekki er ólíklegt að veiðin verði um 4.000 tonn á þessu ári og enn meiri á því næsta, ef ekkert óvænt gerist.

Umframaflinn er fenginn utan hinna skilgreindu veiðisvæða, þar sem tilraunaveiðar hafa verið stundaðar með góðum árangri en án sérstaks leyfis frá stjórnvöldum.

„Í sannleika sagt vita hvorki Hafrannsóknarstofnunin né ráðuneytið nógu mikið um sæbjúgu, og það er ekkert óeðlilegt því þetta er ekki stór tegund í heildarsamhenginu,“ segir Ólafur.

Hann segir skipstjórana sem hafa verið í þessum veiðum árum saman þekki þær manna best. Þeir telji eðlilegast að fara í samvinnu við stjórnvöld og vísindamenn um framhaldið.

„Það eru nátturlega okkar hagsmunir líka sem þarna eru í húfi. Okkar hagsmunir liggja í því að sæbjúgun nái að blómstra og dafna sem stofn, þannig að manni finnst það skjóta skökku við ef þeir ætla að fara út i einhverjar róttækar breytingar á kerfinu án þess að vera í nokkru samráði við þá sem eru búnir að vera i þessu. Mitt fyrirtæki er búið að vera síðasta áratuginn í sæbjúgum, og það er ekkert sjálfgefið með það. Menn hafa byrjað og hætt og allar kúnstir með það í millitíðinni.“

Viðkvæmur rekstur
„Við höfum svo sem farið með þessi rök til ráðuneytisins og ég bind vonir við að þeir sjái nú ljósið í þessu. Við verðum að vona að þeir fari ekki í gegn með þessar breytingar því þetta getur verið bara stórhættulegt fyrir okkur sem erum í rekstri í kringum þetta.“

Meðal umsagna sem ráðuneytinu hafa borist er ein frá bæjarstjórn Ölfuss. Í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss segir að Hafnarness VER hafi sent til hennar erindi þar sem fram komi að um 50-60 störf í Þorlákshöfn geta verið í hættu, verði gerðar þær breytingar á reglugerðinni sem ráðuneytið hefur kynnt.

„Við erum hérna með heilsársrekstrur í kringum sæbjúgu meðal annars,“ segir Ólafur. „Grundvöllurinn að því að við getum haldið rekstri áfram er að sæbjúgun séu til staðar.“

Sveitarfélagið Fjarðarbyggð hefur einnig lagst gegn breytingum á reglugerðinni, að því er fram kemur í Austurglugganum 12. júlí síðastliðinn. Akranesbær hefur sömuleiðis gert athugasemdir.

Fiskifréttir hafa fjallað nokkuð um veiðar og vinnslu sæbjúgna undanfarið. 

Fjallað var um rannsóknir líftæknifyrirtækisins Iceprotein á Skagafirði á sáragræðandi eiginleikum sæbjúgans. Þar er vonast er til að þessir eiginleikar nýtist í einhvers konar krem eða gel til að bera á sár.

Þá er tæpt ár liðið frá því Aurora Seafood ehf. hlaut veglegan styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins til að þróa og tæknivæða veiðar og vinnslu á sæbjúgum. Í viðtali við Fiskifréttir sagði Davíð Freyr Jónsson framkvæmdastjóri verkefninu miða vel áfram.