mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leita að makríl norður í síldarsmugunni

1. september 2015 kl. 09:50

Venus NS 150

Náðu að taka eina stutta sköfu sem skilaði um 100 tonnum af makríl.

,,Þetta er ákaflega rólegt. Menn fóru hingað norður til að leita að makríl en þótt hér sé fjöldi skipa þá er lítið að frétta af aflabrögðum. Við komum á miðin í dag og höfum náð að taka eina stutta sköfu sem skilaði okkur um 100 tonnum af makríl.“

Þetta sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS, í viðtali á heimasíðu HB Granda er rætt var við hann. Venus var þá staddur norður í Síldarsmugunni svokölluðu eða í um 300 sjómílna fjarlægð frá Vopnafirði. Að sögn Guðlaugs hefur lítið fundist af makríl innan íslensku lögsögunnar síðustu vikuna eða svo en á sama tíma hefur norsk-íslensk síld farið vaxandi í aflanum á heimamiðum.

,,Við leggjum áherslu á að veiða makrílinn fyrst en spara síldarkvótann þar til síðar í haust og þess vegna fórum við hingað norður eftir,“ sagði Guðlaugur Jónsson.