laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leita hugsanlega nýrra markaða

Guðjón Guðmundsson
30. nóvember 2020 kl. 13:00

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá Norebo. Mynd/gugu

Strangt eftirlit í Kína vegna heimsfaraldurs kórónuveiru veldur fiskframleiðendum vandræðum.

Kínverjar hafa gripið til umfangsmikils eftirlits með innflutningi á fiski og sjávarafurðum til landsins frá Evrópu af ótta við kórónuveirusmit. Eftirlitið hefur valdið töfum á afhendingu og í mörgum tilfellum hafa heilu farmarnir verið sendir til baka til seljenda.

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá Norebo, segir þetta hafa valdið umtalsverðum vandræðum og telur hann líklegt að fiskverð í Evrópu og Bandaríkjunum, sem eru mikilvægir markaðir fyrir kínverska fiskvinnslu, muni hækka af þessum völdum til skamms tíma.

„Kínversk stjórnvöld gera vírusprófanir á öllum gámum og förmum af kjöti og fiski sem koma inn í landið og ganga skrefinu lengra í þeim efnum en aðrir. Finni þeir snefil af veirunni er allt sent til baka til seljanda. Þetta er að valda talsverðum erfiðleikum því vinnslurnar í Kína eru ekki að fá til sín nógu mikið hráefni. Mest er þetta óunninn fiskur en einnig afurðir sem fara á innanlandsmarkað.“

Kórónuveira getur fundist á umbúðum en lifir þar ekki lengi. Hjúpur veirunnar eyðileggst hafi hún ekki hýsil og eftir standa kjarnsýruleifar sem almennt eru ekki taldar geta valdið smitum.  Afstaða stjórnvalda í Kína er þó önnur og telja þau smithættu til staðar og vísa til smita á tveimur hafnarverkamönnum sem þau segja að hafi veikst með þessum hætti.

Kemur sér illa

Norebo, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Rússlands með veltu upp á um 135 milljarða ÍSK, hefur flutt umtalsvert magn af sjávarafurðum í ýmsum tegundum til Kína. Þessar hörðu aðgerðir koma illa jafnt við seljendur og kaupendur afurðanna. Þær hafa leitt til seinkana á afhendingum á unnum afurðum til Bandaríkjanna og Evrópu.

„Það verður fróðlegt að sjá hver áhrifin af þessu öllu verða á nýju ári þegar minna berst inn á markaðina í Evrópu og Bandaríkjunum. Til skamms tíma gætu áhrifin orðið verðhækkanir á þessum mörkuðum. Við erum reyndar þegar farnir að sjá að hráefnisverð á heilfrystum þorski hefur hækkað sem og á heilfrystum alaskaufsa og fleiri tegundum. Verðhækkanirnar má rekja til þess að fiskvinnslan í Kína þarf nauðsynlega meira hráefni og tafirnar í afhendingu ýta verðunum upp,“ segir Sturlaugur.

Hann segir að annað sem geti hlotist af þessu er að gripið verði til þeirra ráðstafana til framtíðar að leita annarra markaða fyrir afurðirnar.   Eigi það jafnt við um framleiðendur og þá sem sem hafa keypt afurðir frá Kína. Það má segja að Kína hafi verið verksmiðja heimsins síðustu ár en sumir muni nú hugsanlega horfa til áhættudreifingar og leita annarra leiða.  Á síðustu árum hafi vinnslan að einhverju leyti verið að færast frá Kína til Evrópu.  Hugsanlega muni aðgerðir kínverskra stjórnvalda nú hraða þeirri þróun þó áfram muni Kína hafa stóru hlutverki að gegna.