laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leitað á ný við fyrsta tækifæri

Guðsteinn Bjarnason
14. janúar 2021 kl. 07:00

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson á ferð við hafísröndina í Grænlandssundi. MYND/Birkir Bárðarson

Minna fannst af loðnu en í desember.

Loðnan fyrir norðan land hefur í vetur verið að skila sér fyrr austur eftir hefðbundinni gönguslóð en undanfarin ár. Magnið mældist þó minna en hafís í Grænlandssundi gerði loðnuleitarmönnum erfitt fyrir.

Að loknum loðnuleiðangri fimm skipa í síðustu viku sá Hafrannsóknastofnun ekki ástæðu til að breyta ráðgjöf sinni frá í desember. Töluvert minna magn af loðnu fannst að þessu sinni, en Birkir Bárðarson leiðangursstjóri vill þó hafa þann fyrirvara að mælingarnar geti aldrei verið alveg ótvíræðar.

„Miðað við desembermælinguna má segja að við höfum verið að mæla heldur minna en við áttum von á, en við komumst líka yfir minna svæði en síðast út af ís. Það útskýrir eitthvað af þessu, en eðli þessara mælinga er auðvitað þannig að það verður að skoða þetta sem spá en ekki absolút mælingu. Það verður alltaf einhver breytileiki í niðurstöðunni. Við getum verið aðeins ofan við raunveruleikann í einni mælingunni en aðeins neðan við hann í annarri mælingu. En við reynum alltaf að taka tillit til þess líka.“

Fyrr á ferðinni

Birkir segir það nýtt í mælingunum í vetur að loðnugangan fyrir norðan land sé fyrr á ferðinni en hún hefur verið undanfarin ár.

„Það er nýtt að hún sé í nóvember komin að Kolbeinseyjarhrygg, og í desember aðeins lengra, og svo sjáum við hana núna út af Langanesdjúpi. Þetta sáu menn kannski frekar hér á árum áður, en það sem við höfðum séð undanfarin ár og áratugi er að loðnunni hafði seinkað. Hún hefur verið að skila sér seinna austur fyrir, en þetta er í raun frávik frá því og minnir aðeins á fyrri tíma.“

Hafrannsóknastofnun hyggst halda sem fyrst í annan loðnuleiðangur. Birkir segir þá sé einkum tvennt sem haft verði í huga.

„Annars vegar er að reyna að komast í Grænlandssundið þar sem hafísinn er ef hann skyldi hopa, og eins er mögulegt að seinna meir kunni sú loðna sem þar er ganga á önnur svæði þannig að hún verði mælanleg. Hins vegar erum við líka að horfa til þess að við þurfum að ná að mæla vel þann hluta stofnsins sem er kominn þarna austur eftir áður en hún gengur alveg suður fyrir þar sem erfiðara verður að mæla hana. Þetta er nokkuð sem við þurfum að vera vel á tánum með, og gætum þurft að senda skipin okkar til að ná að mæla það vel þannig að við getum seinna meir skoðað það með seinni mælingum fyrir norðan.“

Tilbúnir í næsta leiðangur

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær eða hve mörg skip taka þátt í næsta leiðangri.

Birkir segir bæði rannsóknarskipin, Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson, tilbúin til að fara af stað hvenær sem er.

„Við getum sent þau af stað með stuttum fyrirvara. Í kjölfarið munum við skoða hvort ástæða sé til að kalla til fleiri skip.“

Enn er verið að vinna úr gögnum og stofnmat liggur ekki fyrir. Ráðgjöfin sem byggði á mælingu í desember hljóðaði upp á 22.000 tonn og henni verður ekki breytt að svo stöddu.

Nú er þess beðið að aðstæður, með tilliti til hafíss og veðurs, verði hentugar til að halda í annan leiðangur.