
Aðeins eitt íslenskt skip er eftir á úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg, Helga María AK. Undanfarið hafa fimm íslensk skip verið á úthafskarfanum en þau hafa snúið aftur á heimamið. ,,Þetta er lélegasta úthafskarfavertíðin sem ég hef upplifað. Veiðin hefur verið slök nær allan tímann en undir það síðasta var aflinn um og innan við hálft tonn á togtímann sem er nánast ekki neitt,“ sagði Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE, í samtali við Fiskifréttir.
Alls hefur Þerney RE veitt um 800 tonn upp úr sjó af úthafskarfa að þessu sinni.
Gert er ráð fyrir því að Helga María hætti einnig veiðum í vikunni nema afli glæðist.