þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Létt verk að veiða karfa

12. október 2021 kl. 08:03

Vigri RE 71 í heimahöfn. Mynd/Brim

Heildarafli Vigra RE í nýlokinni veiðiferð var 780 tonn af fiski upp úr sjó.

Frystitogarinn Vigri RE kom til hafnar í morgun með um 360 tonna afla. Þetta er afrakstur seinni hluta yfirstandandi veiðiferðar en millilandað var fyrir rúmri viku síðan. Þá var 420 tonnum af fiski landað í Reykjavík. Heildaraflinn í veiðiferðinni var því 780 tonn af fiski upp úr sjó, að því er kemur fram á heimasíðu Brims. Þar er rætt við Árna Gunnólfsson skipstjóra um túrinn.

„Við fórum nokkuð víða að þessu sinni. Markmiðið var að veiða sem mest af ufsa þá daga sem veðrið leyfði en þess á milli hröktumst við undan veðri frá norðri til suðurs,” segir Árni.

Að sögn Árna hófst veiðiferðin með veiðum á Vestfjarðamiðum. Ekki stóð það ævintýri lengi því það skall á með snælduvitlausri brælu sem þurfti að forða skipi og áhöfn undan.

„Við hrökkluðumst undan þessu óveðri suður fyrir land. Fórum m.a. suður í Skerjadjúp og vorum svo að veiðum á Fjöllunum. Þar var vel hægt að finna ufsa en mest var af gullkarfa. Þótt það væri ekki eiginlegur karfatími var létt verk að fá a.m.k. sex til átta tonn af gullkarfa í stuttu holi. Mitt mat er að hægt væri að veiða miklu meira af gullkarfa ef kvóti ársins leyfði.”

Eftir millilöndunina í Reykjavík var aftur haldið á Vestfjarðamið enda var mesta óveðrið gengið yfir. 

„Heilt yfir var fínn afli á Vestfjarðamiðum þá daga sem við gátum athafnað okkur. Mikið af gullkarfa í Víkurálnum, ufsi víða og ýsan að þvælast fyrir eins og venjulega. Við fengum einnig þorsk og unnum okkur alveg norður á Halamið. Þar var ágætur afli allt til að við þurftum aftur að flýja Vestfjarðamið vegna veðurs,” segir Árni í viðtalinu.