sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leysigeislar smala fiski framan við trollopið

7. nóvember 2008 kl. 08:48

Nú standa yfir tilraunir hérlendis sem miða að því að fanga fisk með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Annars vegar er um að ræða notkun ljósgeisla til þess að smala fiski inn í troll og hins vegar lyktargjöf gegnum slöngu til þess að laða fisk að gildrum. Frá þessu er skýrt í nýjustu Fiskifréttum sem kom út í gær.

Að tilraununum standa Hafrannsóknastofnunin og Háskólinn á Akureyri auk fyrirtækja og hagsmunaaðila í sjávarútvegi en Halla Jónsdóttir, líffræðingur og fisksjúkdómafræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu. Einar Hreinsson, veiðarfærasérfræðingur hjá Hafró, kynnti starfið á aðalfundi LÍÚ í síðustu viku.

Tilraunin með ljósvörpuna felst í því að nota leysigeisla til þess að smala saman fiski framan við trollið í stað þess að nota til þess reipi og tóg eins og nú er gert. Búin var til sérstök varpa vegna tilraunarinnar og settur rammi með ljósum á trollopið. Hugmyndin var að kanna hvort fiskurinn fældist ljósgeislana og veigraði sér við að synda út í gegnum þá.

Hitt verkefnið  felst í því að laða þorsk í gildru með stöðugri lyktargjöf. Hugmyndin er að þróa lykt sem síðan er dælt stöðugt í gegnum slöngu eða barka með það fyrir augum að lokka villtan fisk inn í gildru. Prófuð hefur verið lykt af hakkaðri, soðinni síld og hún reynd í tilraunakví í Álftafirði með góðum árangri. Þorskarnir þyrptust strax að slönguopinu. Að sögn Einars er ætlunin að gera sams konar tilraun úti í náttúrunni og sjá hvernig villtur fiskur bregst við.