

Að undanförnu hafa verið miklar annir í Norðfjarðarhöfn.
Frá því segir á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að nánast samfelld löndun hefur verið á makríl og þá hefur bolfiski einnig verið landað í verulegum mæli úr togurum ásamt því að skip hafa komið til að taka afurðir.
Smærri bátar setja einnig sinn svip á hafnarumhverfið en í dag mun hátt í tugur línubáta landa í Norðfjarðarhöfn og á annan tug strandveiðibáta. Það verður ekki annað sagt en það ríki líf og fjör við höfnina.
Lokið var við að vinna makríl úr Margréti EA í gærkvöldi og hófst þá vinnsla úr Berki NK en hann kom með rúmlega 1.000 tonn. Beitir NK er síðan á landleið úr Smugunni með 1.100 tonn en ágæt makrílveiði var þar í gær.
Þá er verið að landa fullfermi úr Eyjunum, Bergey VE og Smáey VE, í Neskaupstað í dag. Eyjarnar munu halda til veiða á ný strax eftir löndun.