föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lifandi rækja í land eykur verðmætin

8. september 2009 kl. 15:00

Norskir sérfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að minni rækjubátar sem veiða við ströndina geti aukið tekjur sínar umtalsvert með því að landa rækjunni lifandi, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Til að þetta borgi sig þurfa rækjusjómenn að fá 2,86 krónu hærra verð (57 kr. ísl.) fyrir rækjuna og rækjuiðnaðurinn tæpar 17 krónur norskar. Huga þarf vel að rækjunni um borð. Miklu skiptir að sjórinn, sem rækjan er í á leið í land, sé við rétt hitastig og hann má alls ekki vera heitari en 10 gráður.

Þessi nýbreytni við rækjuveiðar opnar meðal annars þá leið að unnt verður að elda og selja rækjuna ferska – eða pakka henni í lofttæmdar umbúðir – á markað í Frakklandi eða Englandi. Einnig verður hægt að vinna rækjuna eftir kúnstarinnar reglum og selja hana ferska og hráa til Japans eða pakka henni lifandi á spánska markaðinn. Þá er markaður fyrir ferska rækju nálægt löndunarstað. Reynslan frá Írlandi og Danmörku sýnir það.

Með því að víkka markaðinn út í Evrópu, sérstaklega á veturna þegar ástand rækjunnar er gott og gæði hráefnisins mest, skapast miklir möguleikar til að auka verðmæti rækjunnar.