mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lifði af nóttina í fiskikari

11. september 2012 kl. 11:35

Björgun.

Ungur Alaskabúi bjargaðist með undraverðum hætti er fiskibátur sökk undan honum í Kyrrahafi

 

Ungur Alaskabúi bjargaðist með undraverðum hætti er fiskibátur sökk undan honum í Kyrrahafi. Lifði hann vistina af í köldum sjónum í fiskikari, að því er fram kemur á vef Jótlandspóstsins.

Nítján ára sjómaður, Ryan Harris, var ásamt félaga sínum á sjó síðastliðinn föstudag. Síðdegis fengu þeir brot á bátinn sem færði hann í kaf. Skipverjar stukku í sjóinn í flýti. Ryan Harris náði ekki að fara í flotgalla en komst upp í fiskkassa sem var um það bil einn metri á kant.

Þrátt fyrir að vont væri í sjóinn tókst Harris að halda jafnvægi í kassanum og þrauka af nóttina og næsta dag í kalsaveðri. Þyrla frá bandarísku strandgæslunni fann hann sólarhring eftir slysið og bjargaði honum sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Félagi Harris hafði komist í flotgalla og náði að synda í land við illan leik.

Ryan Harris segir að hann hafi haldið sér vakandi og glætt lífsvonina með því að syngja barnagæluna „Row, row, row your boat“ og jólasönginn „Rúdolf með rauða nefið“.