sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líflegt á grunnslóð fyrir vestan

Guðsteinn Bjarnason
1. júlí 2021 kl. 16:00

Hringur SH 153 er 29 metra togari, smíðaður í Skotlandi árið 1997 og gerður út af G.Run í Grundarfirði síðan 2005. MYND/Þorgeir Baldursson

Hringur SH í slipp en áhöfnin í frí

Áhöfnin á Grundarfjarðartogaranum Hring var að hreinsa upp úr skipinu og búa það undir skverun í slipp þegar Fiskifréttir náðu tali af Ingimar Hinrik Reynissyni skipstjóra á þriðjudaginn.

„Þetta er bara svona hefðbundið, viðhaldsmálning og svona,“ segir Rikki, eins og hann er jafnan nefndur. „Við ætlum að taka okkur frí á meðan.“

Hann segir veiðina hafa gengið mjög vel undanfarið. Þeir hafi verið á grunnslóð á Vestfjarðamiðum og fengið þar góðan þorsk.

„Það er líflegra hérna fyrir vestan heldur en var í fyrra. Það hefur verið mikið um síli og meiri þorskveiði. Það er kannski heppilegt að makríllinn skuli ekki vera kominn, en það er ekki gott að segja.“

Hann segir árið svolítið tvískipt hjá þeim þeim.

„Á vertíðinni róum við dálítið mikið suður á við, út að Jökli og suður að Eldey. Svo þegar vertíðin er búin og fiskurinn genginn út aftur þá snúum við okkur aftur að Vestfjarðarmiðum og erum þar hinn hlutann á árinu, fram á haustin og eitthvað fram á vetur.“

Þriðja skipið

Hringur SH er gerður út af G.Run á Grundarfirði og Rikki hefur verið á skipinu frá því það kom nýtt árið 2005. Rikki er reyndar Húnvetningur en hefur búið á Grundarfirði lengst af.

  • Hinrik Reynisson skipstjóri.

„Ég byrjaði hérna á sjó á vertíðinni 1978, en svo hef ég farið aðeins í burtu líka. Búinn að vera í fragt og var í Grindavík um tíma, en kom svo aftur. Nú er ég búinn að vera hjá þessu fyrirtæki í slétt 31 ár, þannig að það er farið að teygjast svolítið á þessu hjá mér.“

Hringur er þriðja skipið sem hann siglir hjá G.Run: „Fyrst var það Runólfur gamli og svo gamli Hringur.“ En nú finnst honum tími kominn til að hætta, enda er hann að detta í sextugt í haust.

„Þessi stærð af togurum er bara fyrir unga menn. Við stöndum 16 tíma vaktir, og það er sótt stíft oft á þessum skipum. En þetta er gott skip. Annars væri maður ekki búinn að endast svona lengi. Þetta er duglegur bátur.“

Í haust tekur hann stefnuna á Portúgal og ætlar að keyra þangað. Mögulega færi það svo að hann haldi upp á afmælið sitt um borð í Norrænu.

„Svo ef maður fær alvarleg fráhvarfseinkenni getur maður fengið að fara einn og einn túr. Það er ekki gott að segja hvernig það verður.“

Ekkóhlerar prófaðir

Fyrir um það bil ári hafði Smári Jósafatsson frá Ekkó-hlerum samband við hann og spurði hvort hann væri ekki til í að prófa nýju hlerana. Rikki tók vel í það og

Undanfarið hefur hann verið að prófa nýja toghlera frá Ekkó-hlerum, og segir þá hafa reynst vel.

„Þeir eru svo stöðugir. Þeir eru með lofthólf efst í hlerunum sem gerir þá stöðugri. Það er fínt system. Ég prófaði fyrst aðra hlera, en lét hann svo smíða hlera fyrir mig sem við höfðum breytt aðeins. Hinir voru hærri en þeir voru lækkaðir og breikkaðir.“

Kostir hleranna eru ýmsir. Þeir eru léttari í drætti og nota minni olíu. Rikki hefur sagt þá henta vel bæði í köstun og í hífinu, auk þess sem þeir „detta ekki á bakið“ meðal annars vegna þess að loftlásinn er hafður virkur.

Smári Jósafatsson, að vonum ánægður með árangurinn, segir að Hringur hafi fyrst fengið lánaða háa Ekkó Semi hlera, sem eru 3,9 fermetrar, og fiskaði með þeim á grunnslóð frá 1. maí 2020. Þetta er sama par og Vestmannaey prófaði áður með góðum árangri.

„Þegar Vestmannaey var með þetta par voru hlerarnir ekki með loftlás búnaði. En áður en Rikki á Hring fékk þá lánaða var loftlásbúnaður settur í hleraparið,“ segir Smári.

Í framhaldinu keypti Hringur nýja Ekkó Semi hlera, heldur stærri eða 4,3 fermetrar og voru þeir 1500 kíló en síðan þyngdir í 1700 kg með keðjum sem settar eru inn í lokað rými hleranna.

„Þeir hafa verið með loftlásinn virkan frá byrjun á öllum veiðidýpum. Þegar þeir eru að fiska djúpt þá þjappast loftið saman og „loftlásinn“ er orðinn nánast óvirkur, og ekki þarf að virkja eða afvirkja loftlás boltann. Hlerarnir koma upp og í næsta kasti er loftlásinn orðinn virkur aftur.“