föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líftækni í sjávarútvegi: Lítil umsvif enn sem komið er en mikil gróska í rannsóknum og vöruþróun

17. september 2009 kl. 15:00

Lítil umsvif eru enn sem komið er hjá líftæknifyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. fyrirtækjum sem vinna verðmæti úr aukaafurðum með líftækni og skyldri tækni. Samanlögð velta þeirra er líklega innan við einn milljarður króna, samkvæmt samantekt Fiskifrétta sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Fáein fyrirtæki hafa náð fótfestu hér á landi á þessu sviði en mikil gróska er í rannsóknum og þróun. Nokkur ný fyrirtæki eru til dæmis að hefja framleiðslu. Í Fiskifréttum í dag er birt samantekt um starfsemi þessara fyrirtækja.

Framleiðsluvörur líftæknifyrirtækjanna eru fjölbreyttar. Um er að ræða efni sem notuð eru við vinnslu bragðefna eða sem fæðubótarefni, hráefni í snyrtivörur og lyf og lækningarvörur o.fl.

Helstur fyrirtæki á þessu sviði eru:

Primex á Siglufirði vinnur kítósan úr rækjuskel sem selt er sem hráefni í fjölbreytta framleiðslu, m.a. megrunarvörur og sáraumbúðir. Fyrirtækið setti í vor á markaðinn sáragel í neytendapakkningum fyrir dýr. Sáragelið var kynnt á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið var nýlega í Sviss og vakti þetta undraefni frá Íslandi mikla athygli.

Ensímtækni í Reykjavík vinnur meltingarensím úr þorskslógi sem notað er í neytendavöru sem fyrirtækið framleiðir, svo sem náttúruvöru, snyrtivöru og lyf. Til dæmis hefur verið sýnt fram á að einsímið getur drepið inflúensuveirur af ýmsum gerðum, þar með talið fuglaflensuveiruna.

Norðurbragð á Höfn í Hornafirði notar svokölluð kuldavirk ensím við gerð bragðefna. Með þeim er hægt að framleiða efnin án suðu og fá bragðmeiri og betri framleiðslu. Helstu afurðir Norðurbragðs eru þykkni eða bragðkjarnar úr humri, rækju, fiski og sjávarréttum.

Nýstofnað fyrirtæki, Kerecis, vinnur að þróun á lækningarvörum til að meðhöndla skaddaðan líkamsvef með prótínum úr fiski. Markmiðið er að hefja framleiðslu og sölu á afar sérhæfðum og verðmætum sáraumbúðum úr fiskprótíni í byrjun árs 2011.

Iceprotein á Sauðárkróki vinnur prótín úr afskurði og beinagörðum og hefur þróað prótínlög til notkunar í fiskiðnaði. Einnig hefur verið ráðist í frekari þróun og mælingar á lífvirkni afurða til notkunar í fæðubóta- og heilsuvörur.

Sjá nánari umfjöllun í Fiskifréttum og viðtal við Hörð Kristinsson, sviðstjóra hjá líftækni- og lífefnasviði Matís ohf.